Heiðdís Inga hefur áður lagt Krabbameinsfélaginu lið því hún hannaði herðatréð Herra Tré, til styrktar átakinu Mottumars sem fram fór fyrr á árinu. Herðatréð hannaði hún í minningu afa síns, Þóris Þórðarsonar, er lést fyrir ári síðan eftir erfið veikindi.
„Hún seldi herðatré fyrir hálfa milljón og hana langaði að halda áfram að leggja málefninu lið. Það er gott að geta lagt sitt af mörkum því það eru margir sem hafa glímt við krabbamein,“ segir Svandís.
Þverslaufurnar eru handsaumaðar af vinkonunum og bera nafnið Bóthildur. „Nafnið var mikill hausverkur. Við vildum fá sterkt, íslenskt kvenmannsnafn á slaufurnar og duttum niður á nafnið Bóthildur. Nafnið merkir „sú sem baráttuna bætir“ og var eitthvað svo ótrúlega viðeigandi.“
Svandís og Heiðdís hafa þekkst frá því þær voru börn að aldri og stunda báðar nám við Tækniskólann. „Ég er í fatahönnun og hún stundar nám á almennri hönnunarbraut. Við erum búnar að vera bestu vinkonur alla okkar skólagöngu, ef menntaskólaárin eru frátalin. Ég fór í Versló og hún í MH og vinskapurinn stóðst þá raun,“ segir Svandís og hlær.

