Tónlist

Margt sem breytist á fimm árum

Kjartan Guðmundsson skrifar
Katrína Mogensen, önnur frá vinstri, ásamt félögum sínum í Mammút, þeim Vilborgu Ásu Dýradóttur, Alexöndru Baldursdóttur, Arnari Péturssyni og Andra Bjarti Jakobssyni.
Fréttablaðið/Arnþór
Katrína Mogensen, önnur frá vinstri, ásamt félögum sínum í Mammút, þeim Vilborgu Ásu Dýradóttur, Alexöndru Baldursdóttur, Arnari Péturssyni og Andra Bjarti Jakobssyni. Fréttablaðið/Arnþór Fréttablaðið/Arnþór
Andlegrar heilsu okkar allra vegna er mjög gott að þessi plata sé loksins að koma út. Stundum verður maður að sleppa til að geta haldið áfram,“ segir Katrína Mogensen, söngkona hljómsveitarinnar Mammút sem sendir frá sér sína þriðju breiðskífu, Komdu til mín svarta systir, síðar í mánuðinum.

Biðin eftir þessari nýju plötu frá Mammút hefur verið ansi löng enda heil fimm ár liðin síðan sveitin, sem komst á kortið þegar hún stóð uppi sem sigurvegari í Músíktilraunum árið 2004, sendi frá sér plötuna Harkara. Sú plata var víða lofuð í hástert og heyrðust lög af henni talsvert á öldum ljósvakans, en hverju skyldi þessi langa bið eftir nýrri afurð frá Mammút sæta?

„Nýja platan hefur verið í bígerð síðan í byrjun árs 2010, þegar við hófumst handa við að leggja grunn að henni, en hún er orðin allt önnur plata núna. Við höfum þurft að byrja upp á nýtt nokkrum sinnum, henda heilmiklu af efni og í rauninni átta okkur á því í hvaða átt við vildum taka þessa plötu,“ útskýrir Katrína og bendir einnig á að þegar Karkari, önnur plata Mammút á eftir frumburðinum sem er samnefndur sveitinni og kom út 2006, kom út fyrir fimm árum hafi meðlimir Mammút enn verið löglegir táningar.

„Það gerist auðvitað ansi margt á fimm árum, þannig að í raun má segja að lífið sjálft hafi tafið útkomu plötunnar. Við höfum öll verið upptekin við að vaxa og þroskast og ýmislegt breyst, bæði milli okkar persónulega og varðandi það hverju við viljum ná fram í tónlistinni okkar.“



Bjóða nýja hlið velkomna

Aðspurð viðurkennir söngkonan að þetta hökt á útkomu plötunnar hafi orsakað það að verkið hafi legið dálítið á sálinni á meðlimum sveitarinnar. Léttirinn sé enda mikill nú þegar sér fyrir endann á biðinni. 

„Á einhverjum tímapunkti hefur okkur öllum örugglega fundist eins og þessi plata myndi aldrei koma út. En við höfum lagt mikið á okkur við að tryggja að lögin níu á plötunni eigi heima í þessari heild,“ segir Katrína og lofar um leið að nokkur lög sem þurftu að víkja fyrir þeim sem náðu á plötuna verði kláruð og gefin út á einhverjum öðrum vettvangi.

Mammút, fyrsta plata sveitarinnar sem kom út árið 2006, þótti afar rokkuð og jafnvel jaðra við pönk á köflum. Strax á næstu plötu, hinni rómuðu Karkara frá 2008, kvað við nýjan og poppaðri tón í bland við elektróník og fleira. Þar varð því mikil þróun á tveimur árum, en hvað gerist á heilum fimm árum í þeim efnum?

„Karkari var mjög poppuð plata, enda gerðum við hana þannig meðvitað. Á Karkara vorum við ástfangin af poppforminu og melódíum, ég var til að mynda heltekinn af Britney Spears og fleiru vinsældpoppi, þriggja og hálfs mínútna löngum lögum með viðlögum sem hægt var að syngja með í viðlögunum. Ég býst við að við séum enn í sömu pælingum á nýju plötunni. Ég trúi því að minnsta kosti að þetta sé poppplata. Eða kannski er hún það ekki. Nei, örugglega ekki. Eigum við ekki bara að segja að það sé okkar að gera en annarra að skilgreina,“ hlær söngkonan og auðheyrt að slíkar vangaveltur eru ekki í uppáhaldi hjá henni. Hún nefnir þó að lagið Blóðberg af nýju plötunni, sem er í mikilli útvarpsspilun um þessar mundir, megi líta á sem nokkurs konar brú milli Karkara og Komdu til mín svarta systir.

Téðan titil á nýju plötunni útskýrir Katrína á þann hátt að um sé að ræða línu sem var fengin að láni úr ljóði eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. „En titillinn er líka sprottinn út frá textunum, sem fjalla margir um að taka nýrri hlið á sjálfum sér opnum örmum. „Svarta systirin er þessi nýja hlið sem þarf að bjóða velkomna,“ útskýrir hún.

Fjórtán ára á viskíkvöldi

Eins og áður sagði var Mammút stofnuð af fimm vinum úr Laugarneshverfinu og þar í kring þegar meðlimirnir voru vart af barnsaldri árið 2003. Sveitin heldur því upp á tíu ára starfsafmæli nú í desember, en það er staðreynd sem Katrína segist fráleitt hafa séð fyrir á sínum tíma. „Ég hugsaði ekki einu sinni út í að yrði ennþá til árið 2013,“ rifjar hún upp og segir hljómsveitina að einhverju leyti sprottna upp úr skólaleiða.

„Við höfum alltaf gert það sem okkur langar til að gera,“ segir hún og þverneitar þegar blaðamaður spyr, meira í gamni en alvöru, hvort meðlimir Mammút hafi verið vandræðaunglingar. „Ég held að í rauninni höfum við verið afbrigðilega eðlilegir unglingar. Eflaust vorum við pínu uppreisnargjörn, en alltaf með skýran koll og ákveðna sýn.“

Hún telur sigurinn í Músíktilraunum árið 2003 hafa skipt gríðarlegu máli fyrir framgang sveitarinnar. „Skyndilega vorum við, fjórtán ára gömul, að spila á Gauki á Stöng með Maus sem við höfðum verið að hlusta á inni í herbergjunum okkar skömmu fyrr. Við spiluðum meira að segja á Jack Daniels-kvöldum, sem var örugglega kolólöglegt, og mamma og pabbi mættu á tónleikana til að passa að við færum ekki að djamma. Þetta var mikið mál fyrir svona ungt fólk, en við létum það aldrei stíga okkur til höfuðs. Við höfum alltaf tekið það sem við viljum út úr þessum bransa, þetta uppbyggilega og vinalega.“

Sjálf kemur Katrína af tónelsku fólki en pabbi hennar. Birgir Mogensen, lék með hljómsveitunum Kukl, Spilafífl og fleirum á níunda áratugnum. Hlaut hún tónlistarlegt uppeldi?

„Já, ég held það. Systir mín, Júlía Mogensen, er atvinnusellóleikari og ég var alltaf með henni í sellótímum, auk þess sem það var mikið hlustað á alls kyns tónlist á heimilinu. Það var samt aldrei sett nein pressa á mig að læra á hljóðfæri, heldur fékk ég að prófa að æfa mig á hitt og þetta en hætti því alltaf fljótlega. Móðurfjölskyldan mín er troðfull af klassísku tónlistarfólki og það heillar mig sem áhorfanda þótt klassíkin sé ekki fyrir mig,“ segir Katrína.

Snarbilað menntakerfi

Söngkonan stundar myndlistarnám við Listaháskóla Íslands og útskrifast þaðan í vor, en hún hefur haldið nokkrar sýningar og einbeitir sér mest að gjörningum, skúlptúrum og stórum innsetningum. Hún segist aldrei hafa kunnað vel við sig í skóla þar til hún fór að læra það sem hana langaði til, myndlist. Til að mynda kaus hún að feta ekki sama veg og margir jafnaldrar hennar og ganga menntaskólaveginn.

„Listinn yfir það sem mér þótti leiðinlegt við skóla er svo langur að ég get varla byrjað á honum,“ segir hún aðspurð og tekur fram að hún hafi hreinlega hlakkað til að geta ráðið sér sjálf.

„Ég byrjaði reyndar í menntaskóla en hékk bara þar í stuttan tíma, eða þangað til ég gat sagt foreldrum mínum að ég nennti því ekki meir. Mér finnst menntakerfið snarbilað og ónýtt, því það fylgir ekki þessari hröðu þróun samtímans. Það stendur þó vonandi til bóta,“ segir Katrína, en hún vann meðal annars fyrir sér við umönnunarstörf og á veitingastöðum og vann sér inn tilskyldar einingar í Myndlistarskóla Reykjavíkur áður en hún hóf nám í Listaháskólanum.

Þar segist hún strax hafa kunnað vel við sig og þegar hún útskrifast í vor verður hún tón- og myndlistarmaður í fullu starfi. Þykir slík starfslýsing ekki öfundsverð í augum margra?

„Jú, ef það er mögulegt að láta það ganga upp að lifa á listinni,“ segir hún. „Það er ekki hægt að segja að fjárlögin sem voru kynnt um daginn fylli mann bjartsýni.“

Getum ekki hætt

Rödd og söngstíl Katrínu hefur margoft verið líkt við Björk. Hvað finnst henni um slíkar samlíkingar?

„Ég veit ekki hvort mér finnast þær slæmar. Björk er bara með stórkostlega rödd og það er gaman að vera líkt við svona stórkostlegan listamann, en á sama tíma vil ég ekki gangast upp í því að líkjast Björk. Ætli það sé ekki bara óumflýjanlegt, þegar þú ert íslensk söngkona sem syngur hátt og ákveðið, að vera líkt við hana? Að minnsta kosti held ég að flest íslenskt tónlistarfólk hafi orðið fyrir áhrifum frá Björk,“ segir Katrína.



Aðspurð segir hún alla orku Mammút-liða beinast að því að klára útgáfu nýju plötunnar og fylgja henni eftir þessa dagana. „Svo sjáum við bara til, en við höldum áfram. Ég held að við gætum ekkert hætt án þess að slíta vináttuböndin í leiðinni og það er aldrei að fara að gerast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×