Sýning á gömlum auglýsingum úr Rafskinnu var opnuð í Galleríi Fold í gær. Rafskinna setti mikinn svip á bæjarlífið um miðbi k síðustu aldar, en hún var alfarið hugmynd Gunnars Bachmann sem fékk innblástur að henni í París og lét smíða bókina hér heima.
Tvisvar á ári var Rafskinna sett niður við hlið Hressingarskálans í miðbæ Reykjavíkur og þar gat fólk séð auglýsingar flettast sjálfkrafa í þessari rafknúnu bók sem kölluð var töfrabókin,“ útskýrir Hrefna Bachmann, barnabarn Gunnars Bachmann, sem var eigandi, hugmynda- og textasmiður Rafskinnu.
„Afi fór til Parísar árið 1932 og sá þar svipaða bók, kom heim og lét smíða þessa hjá blikksmiðju í Reykjavík,“ heldur Hrefna áfram. „Þetta var algjör nýjung í bæjarlífinu á þessum tíma og fólk kom bara „á rennandi blautum ullarsokkunum“, eins og var sagt í einhverri blaðagrein frá þessum tíma, til að skoða dýrðina. Mamma man eftir því að hafa verið þarna uppáklædd að skoða auglýsingarnar og svo var farið á eftir og keyptur ís, þetta var hálfgerð hátíð.“
Teiknarar Rafskinnu voru þeir Tryggvi Magnússon, sem teiknaði frá 1933-1943 og Jón Kristinsson, Jóndi í Lambey, sem tók við af Tryggva og teiknaði þar til Rafskinna var tekin niður í síðasta sinn árið 1957. „Bókin var sett upp tvisvar á ári, fyrir jól og páska, alveg frá 1933 til 1957,“ segir Hrefna. „Afi dó svo 1957 og eftir það lögðust sýningarnar niður.“
Auk sýningarinnar í Galleríi Fold verða myndirnar til sýnis á hundrað strætóskýlum víðs vegar um bæinn frá og með næsta þriðjudegi. Í tilefni af sýningunni hafa verið gerðar eftirprentanir af völdum myndum úr Rafskinnu auk þess sem hægt verður að festa kaup á póstkortum með myndum úr henni.
Á rennandi blautum ullarsokkunum
