„Ólavur Hátún, sem er þessi stóri karakter í tónlistarlífinu í Færeyjum, hefur í tugi ára látið flytja til skiptis Jólaóratoríuna eftir Bach og Messías eftir Händel í Þórshöfn fyrir jólin,“ segir Hallveig Rúnarsdóttir spurð hvernig samstarf hennar og Havnakórsins hafi komið til. „Hann hefur alltaf fengið íslenska söngvara til liðs við sig og fyrir tveimur árum hafði hann samband við mig og bað mig að koma og syngja með kórnum í Messíasi. Ég tók því boði fagnandi og fór svo aftur í fyrra og söng með þeim í Jólaóratoríunni.“ Hallveig segir samstarfið við Havnakórið hafa verið hreint út sagt stórkostlegt. „Fólkið í þessum kór er alveg meiriháttar og alltaf mikil stemning. Ólavur ákvað síðan að heiðra þetta samstarf við íslenska söngvara með því að flytja kórinn hingað og halda eina tónleika hér í ár. Hann lítur á það sem sitt grand finale.“

Einungis verður um þessa einu tónleika að ræða hérlendis, en Messías verður síðan fluttur í Þórshöfn með sömu söngvurum seinna í desember.