„Ég útskrifaðist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012 og er nú í mastersnámi í myndlist hjá Goldsmiths University í London en ég lýk því námi 2015, ef allt gengur upp,“ segir Sæmundur Þór, en sýningin er hans fyrsta einkasýning á Íslandi.
„Sýningin samanstendur af tveimur vídeóinnsetningum sem eru búnar til á staðnum – og einni þrívíddarteikningu af sýningarplássinu sjálfu,“ útskýrir Sæmundur.
Verk Sæmundar eru iðulega framkvæmd á staðnum þar sem þau eru sýnd.

Nafnið á sýningunni, Inform, kemur út frá virkni verkanna. „Verkin upplýsa hvert annað, ef maður persónugerir þau,“ segir Sæmundur.
„Þau upplýsa áhorfandann um bæði tilurð hvers verks og einhvern veginn bendir það líka til nágrannaverks síns, hvernig verkin vinna saman,“ útskýrir Sæmundur og segir sýninguna vera nokkurs konar frásögn.
„Maður fer inn í tímaröð. Á milli verkanna er ákveðin tímaröð sem er ekkert endilega skýr,“ segir Sæmundur að lokum um sýninguna.