Veiði

Viltu veiða 3 metra Styrju?

Karl Lúðvíksson skrifar
Styrjur geta orðið mjög stórar við Fraiser ánna í Kanada
Styrjur geta orðið mjög stórar við Fraiser ánna í Kanada
Styrja er fiskur sem getur orðið um hundrað ára gamall og hefur verið þekktastur fyrir hágæða lúxusvöru sem fiskurinn gefur af sér, kavíar.

Og engin venjulegur kavíar því grammið getur verið frá 8.000 upp í 100.000 og stundum meira.  Dýrustu veitingastaðir heims bjóða gjarnan uppá skammtastærðir sem eru yfirleitt ca matskeið og geta kostað fáranlegar upphæðir.  Þessi fiskur er ekki bara uppruni þessara vellystinga heldur einnig mjög eftirsóttur sportfiskur og þá sérstaklega í Bresku Kolombíu á vesturströnd Kanada þar sem mikið er veitt af honum, sérstaklega í Fraiser ánni þar sem friðun og sleppiskylda hefur skilað aukinni veiði og oft gríðarlega stórum fiskum.

Sem dæmi var einn stærsti fiskurinn í fyrrasumar 318 sm langur en svoleiðis fiskar veiðast yfirleitt ekki nema einu sinni á áratug.  Algengar stærðir eru samt sem áður 200-250 sm sem er ekkert slor og það getur tekið 1-2 tíma að ná þessum skepnum inn.  Veiðimenn víða úr heiminum sækja í að veiða Styrjuna enda gríðarlega skemmtilegur fiskur að eiga við ásamt því að þetta er ekki mjög dýr veiði.  Það eru fjölmörg fyrirtæki sem gera út á þessa þjónustu við Fraiser ánna og algengt verð er 30.000-60.000 fyrir daginn á mann með leiðsögumanni, bát og öðrum veiðibúnaði, en það er þó alveg hægt að fara í dýrari pakka.  Miðast veiðidagurinn þar við 8 tíma.  Það er líka hægt að fara í töluvert dýrari veiði enda bætist þá húsakostur við en það má reikna með 20.000-30.000 fyrir húsakost á mann en þá er líka allt innifalið, þar með talið allar veigar, matur og drykkur.

Umhverfið þarna er engu líkt og veiðivonin mikil.  Á göngutíma laxsins sem gengur í ána er menn líka að berjast við laxa en af öðrum tengundum en hér heima.  Mest veiðist af Sockeye, Pink salmon og King salmon en þeir síðast nefndu geta og verða oft um 40-50 pund.  Ef þú einhvern tímann vilt skoða þetta þá er nóg að slá inn "Sturgeon fishing in BC" í Google og þá færðu upp fjölda möguleika.  Þetta er alla vega á mínum lista yfir veiðistaði sem ég ætla mér að prófa.






×