Veiði

Mögnuð vorveiði í Varmá

Karl Lúðvíksson skrifar
Varmá er fyrir löngu orðin vel þekkt sem ein skemmtilegasta vorveiðiáin í nágrenni Reykjavíkur og sú var tíðin að slegist var um leyfin fyrstu vikurnar í henni.

Eftir mengunarslys sem varð í ánni árið 2007 hrundi eftirspurn veiðileyfa en með hreinsunarátaki náði sér á strik og gott betur en það.  Stórir sjóbirtingar leynast í hyljum Varmár og veiðimenn hafa sett í fiska og séð fiska sem fullyrt er að fara jafnvel um og yfir 20 pund en á hverju ári veiðast fiskar sem eru 10 pund og stærri.  Áin býr yfir fjölbreyttri flóru tegunda sem í hana ganga og þar má auðvitað fyrst nefna sjóbirting en einnig er þar að finna staðbundin urriða, sjóbleikju, staðbundna bleikju, lax og stöku ál sem sést mest á neðstu svæðunum í ánni.

Eingöngu er veitt á flugu og dagskvótinn er einn fiskur en eftir að honum er náð má veiða og sleppa að vild.  Mest er veitt á straumflugur fyrstu dagana en einnig veiðist vel á púpur.  Þegar líður á tímabilið er einnig mikið veitt á þurrflugu og eru sumir veiðistaðirnir á neðri hlutanum sérstaklega skemmtilegir með þurrflugu að vopni.  Veitt er á 6 stangir í ánni og er veiðisvæðið um 20 kílómetra langt svo það er nóg af plássi fyrir alla.  Fyrstu mistökin sem margir gera þarna er að fara í Stöðvarhylinn og hanga þar.  Þar er vissulega mikið af fiski en þegar þú ert búinn að fá 3-4 er hylurinn oft og iðullega sprunginn.  Fyrir neðan og fyrir ofan Stöðvarhyl er örstutt labb í veiðistaði sem eru ekkert síðri og geyma líka fiska.  Besta ráðið til að veiða ánna er að stoppa ekki mikið meira en klukkutíma á hverjum stað.  Það eykur líkurnar á því að þú finnir fisk sem ekki hefur verið kastað á og vonandi finnur þú einn af þessum stóru skuggum sem sjást reglulega þarna.  Ef þú setur í einn slíkann áttu ekki eftir að gleyma því í bráð.






×