Mikill vindur gerði kylfingum erfitt fyrir en eftir tvo daga á þessum gríðarlega erfiða golfvelli, sem er réttilega skýrður „Bláa skrímslið“, leiða Bandaríkjamennirnir fjórir mótið, Matt Kuchar, Hunter Mahan, Patrick Reed og Dustin Johnson en þeir eru allir á einu höggi undir pari.
Stór nöfn frá Evrópu elta þó forystusauðina af krafti en Rory McIlroy, Graeme McDowell, Jamie Donaldson og Francesco Molinari eru allir á pari eftir 36 holur.
Aðstæður á Doral voru virkilega erfiðar í dag enda mikill vindur á svæðinu en margir heimsklassa kylfingar hafa átt erfitt uppdráttar. Þar má nefna fyrrum besta kylfing heims, Luke Donald sem er átta höggum yfir pari, Ernie Els er níu höggum yfir, Lee Westwood er tíu höggum yfir pari og fyrrum US Open meistarinn Webb Simpson er 14 höggum yfir pari.
Tiger Woods er sex höggum á eftir efstu mönnum á fimm yfir pari en með góðum hring á morgun gæti hann hæglega blandað sér í toppbaráttuna. Þriðji hringur á Cadillac meistaramótinu fer fram á morgun og hefst útsending á Golfstöðinni slaginu 18:00.