Kristín Guðmundsdóttir, leikstjórnandi Vals, var ekki sátt við frammistöðu dómaraparsins í kvöld.
„Mér fannst við fá tvær mínútur fyrir allt sem við gerðum hérna í lokin,“ sagði Kristín við Vísi eftir leikinn.
„En þetta var vissulega skrýtinn leikur. Kannski voru þær svona ægilega góðar í vörn en það var bara erfitt að spila þegar það er endalaust verið að rífa í mann í sókninni og það er ekkert dæmt.“
„Þetta var orðið hættulegt. Þeim var alveg sama hvernig þær brutu - þær komust alltaf upp með það,“ bætti Kristín við.
Þess má geta að Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fór meidd af velli í síðari hálfleik eftir að brotið var á henni. Hún kom ekki meira við sögu.
Kristín segist þó sátt við margt í leiknum og að það megi nýta margt fyrir framhaldið.
„Við erum nú búnar að spila tvo leiki eftir nokkuð langa pásu og ég finn strax mun á okkur í kvöld miðað við síðasta leik. Við náðum svo að gera heilmikið í kvöld sem mun koma sér vel í næstu leikjum.“
Valur mætir ÍBV í undanúrslitunum og Kristín segir að leikmenn Vals mæti fullar sjálfstrausts til leiks.
„Mér finnst vörnin okkar það góð í kvöld. Í raun finnst mér að við hefðum átt að vinna þennan leik með fimmtán marka mun en ég tek það ekki af Haukum að þær eru með hörkulið.“
Kristín: Þetta var orðið hættulegt

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Valur 17-20 | Öflug byrjun dugði til
Valur er komið áfram í undanúrslit í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna.

Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - ÍBV 19-21 | Eyjakonur komnar áfram
ÍBV er komið í undanúrslit Olís deildar kvenna eftir tveggja marka sigur á FH í Kaplakrika.