Veiði

Stórbleikjan liggur víða í Varmá

Karl Lúðvíksson skrifar
Marel Ragnarsson með stóru bleikjuna úr Varmá.
Marel Ragnarsson með stóru bleikjuna úr Varmá.
Þrátt fyrir að sjóbirtingurinn í Varmá sé allur gengin til sjávar er ennþá hægt að gera góða veiði í ánni og þá sérstaklega ef menn vilja setja í stórar bleikjur.

Marel Ragnarsson var á ferðinni við ánna fyrir fáum dögum og náði í allsvakalega flotta bleikju sem er stutt og allverulega þykk um miðjuna.  Ekki fylgir sögunni hvað hún var þung en miðað við þær bleikjur sem hafa komið á land úr Varmá þetta vorið gæti hún verið 6-7 pund.  Bleikjan tók Peter Ross púpu sem er feyknagóð vorveiðipúpa í silung og þá hnýtt með vænginn í lokað vænghylki.  Þeir sem hafa kíkt í Varmá hafa séð mikið af stórri bleikju í Stöðvarhylnum en hún getur verið virkilega stygg og erfið viðureignar svo menn þurfa að nálgast hylinn afskaplega varlega og veiða helst andstreymis ef góður árangur á að nást.  En þær liggja víðar en þar svo það er um að gera að skoða staðina fyrir neðan Stöðvarhylinn því þeir fá oftast smá hvíld og þar liggur líka oft væn bleikja.  Þeir veiðimenn sem vilja kíkja í Varmá næstu daga geta fundið laus leyfi á vef SVFR.






×