Handbolti

Valur biður Florentinu afsökunar á trúðsummælum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Forentina Stanciu hefur leikið vel í einvíginu gegn Val.
Forentina Stanciu hefur leikið vel í einvíginu gegn Val. Vísir/Daníel
Valsmenn vilja biðja Florentinu Stanciu, markvörð Stjörnunnar, afsökunar á uppnefni sem hún er kölluð í pistli á heimasíðu félagsins sem var ritaður eftir annan leik liðanna í lokaúrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag er landsliðsmarkvörðurinn kallaður trúður í umræddum pistli vegna þess að hún „baðar út öllum skönkum eins og hún hafi verið að slá einhver met“ þegar hún ver skot.

„Það taka allir eftir þegar Flóra ver því hún hleypur eins og trúður út um allan völl og baðar út öllum skönkum eins og hún hafi verið að slá einhver met.  En sorrý trúður - Begga gerði betur en þú,“ sagði í pistlinum um annan leik liðanna sem hefur nú verið breytt.

Valsmenn hafa ritað afsökunarbeiðni til Florentinu á heimasíðu sína en þar segir að slík uppnefni séu ekki í anda félagsins.

„Þau mistök áttu sér stað af hendi Valsara, í pistli á heimasíðu Vals, að markvörður Stjörnunnar í handbolta, Florentina Stanciu, var kölluð trúður. Eru þessi skrif ekki í anda þeirrar háttvísi sem Knattspyrnufélagið Valur vill hafa að leiðarljósi. Florentina er því hér með beðin innilegrar afsökunar á þessum mistökum,“ segir í afsökunarbeiðni Valsara.

Staðan í einvígi liðanna er 2-1 fyrir Stjörnuna en þau mætast í fjórða leiknum í Vodafonehöllinni á miðvikudagskvöldið.


Tengdar fréttir

Landsliðsmarkvörður kallaður trúður

Valsmenn fara óskemmtilegum orðum um Florentinu Stanciu, markvörð Stjörnunnar og íslenska landsliðsins í handbolta, á heimasíðu sinni en liðin eigast við í lokaúrslitum Olís-deildar kvenna í handbolta.

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Valur 26-23

Stjarnan vann gríðarlega mikilvægan 26-23 sigur á Val í dag og leiðir 2-1 í einvígi liðanna í úrslitum Íslandsmótsins. Stjarnan leiddi frá fyrstu mínútu og er ekki hægt að segja annað en að sigur deildarmeistaranna hafi verið sanngjarn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×