Golf

Colin Montgomerie sigraði á PGA meistaramóti öldunga

Montgomerie fagnar sigrinum um helgina.
Montgomerie fagnar sigrinum um helgina. Getty
Skotinn Colin Montgomerie sigraði á sínu fyrsta móti í Bandaríkjunum á ferlinum um helgina en hann sigraði á PGA meistaramóti öldunga sem fram fór á Harbor Shores vellinum í Michigan. Mótið er eitt af „risamótum“ öldungamótaraðarinnar en Montgomerie hóf leik á henni fyrr á árinu þar sem hann er orðinn fimmtugur. Lék hann hringina fjóra á 13 höggum undir pari en goðsögnin Tom Watson endaði í öðru sæti á níu undir pari.

Sigur Montgomerie er einnig hans fyrsti í atvinnugolfmóti síðan árið 2007 en með honum öðlaðist hann þátttökurétt á PGA-meistaramótinu á Valhalla vellinum í ágúst.

„Ég er ótrúlega ánægður með að hafa unnið mitt fyrsta mót á bandarískri grundu eftir öll þessi ár,“ sagði Montgomerie við fréttamenn eftir lokahringinn.

“Þetta hefur verið eitthvað sem hefur vantað á ferilskránna mína þrátt fyrir að ég hafi svo sannarlega reynt oft fyrir mér í Bandaríkjunum. Þá gefur það mér smá uppreisn æru að minn fyrsti sigur á öldungamótaröðinni sé risamót sem hefur mikla sögu, ég er í góðu formi þessa dagana og mig hlakkar mikið til að berjast aftur við þá bestu á PGA-meistaramótinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×