Veiði

Fiskvegur skal gerður fyrir ísaldarurriðann

Svavar Hávarðsson skrifar
Þessum urriða var sleppt eftir langan bardaga en hann er gott dæmi um glæsileika tegundarinnar.
Þessum urriða var sleppt eftir langan bardaga en hann er gott dæmi um glæsileika tegundarinnar. Mynd/Hinrik
Eitt af síðustu verkum Alþingis fyrir sumarhlé var að samþykkja þingsályktunartillögu um að stjórnvöld tryggi gerð fiskvegar úr Þingvallavatni í Efra-Sog til að opna einstökum urriðastofni vatnsins leið. Samhliða verði ráðist í endurbætur á fornum hrygningarstöðvum urriðans í efri hluta árinnar, og fyrir mynni hennar, til að stuðla að farsælli endurheimt stofnsins, fyrirskipar Alþingi.

„Þetta er auðvitað stórkostlegur árangur fyrir okkur sem höfum í tvo áratugi barist fyrir því að opna fyrir urriðann niður úr Þingvallavatni á sín gömlu óðul í Efra-Sogi. Í dag rennur sem svarar einum Elliðaám undir botnlokur í stíflunni. Það ætti að vera nóg til að koma aftur upp þokkalegum hrygningarstofni í Efra-Sogi, en þar voru áður mikilvægustu hrygningarstöðvarnar fyrir ísaldarurriðann, sem er einstakur á heimsvísu,“ segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem flutti tillöguna.

Össur hefur flutt fjöldamörg þingmál um endurreisn urriðans, og skrifaði 1996 bókina Urriðadans.

„Það var eiginlega löng minningargrein um ísaldarurriðann því hann er beinlínis kvaddur í bókinni. Þá héldum við að hann væri endanlega að hrapa fyrir ætternisstapa. Landsvirkjun má hins vegar eiga það, að hún hefur svarað þrýstingi unnenda urriðans með margvíslegum hætti, og sleppingar um 1990 björguðu honum líklega frá endanlegum dauða í vatninu,“ segir Össur.

Næsta skref, að mati Össurar, er að þrýsta á að Landsvirkjun standi við fyrri yfirlýsingar, og nú samþykkt Alþingis. Þá þurfi að bæta riðstöðvarnar með því að bera hrygningarmöl í efri hluta Efra-Sogs og jafnvel bæta riðstöðvar í Öxará.

Össur Skarphéðinsson.vísir/daníel
„Sömuleiðis þarf að setja reglur sem koma í veg fyrir ofstopaveiði á urriða á stöng. Það þyrfti að láta gilda um allt vatnið sömu reglur og gilda núna fyrir þjóðgarðslandið. Ef ráðist verður í allt þetta, ásamt fiskvegi í Efra-Sog, þá er ísaldarurriðinn endanlega heimtur úr helju. Það stappar eiginlega kraftaverki næst miðað við hversu hætt hann var kominn upp úr 1990 þegar við fórum að slást fyrir honum,“ segir Össur.

Vísir að hrygningu þegar til staðar

Ekkert vatn rann um náttúrulegt frárennsli Þingvallavatns um áratugaskeið eftir að Steingrímsstöð við Efra-Sog var byggð á árunum 1958–60. Efra-Sog er náttúrulegt útfall Þingvallavatns til Úlfljótsvatns. 

Á árunum 1994–1996 var unnið að endurnýjun véla Steingrímsstöðvar. Á meðan á því verki stóð þurfti að veita vatni um árlokur niður farveg Efra-Sogs. Eftir að því verki lauk var ákveðið að halda nokkru vatnsrennsli áfram í árfarveginum og hefur það viðhaldist síðan.

Líklegt er talið að núverandi rennsli um farveginn nemi um 3–5 prósentum af náttúrulegu rennsli um Efra-Sog.

Frá árinu 2006 hafa fundist urriðaseiði í uppeldi í Efra-Sogi. Árin 2007 til 2010 merktu Laxfiskar ehf. 48 urriða á riðunum á Efra-Sogi sem voru á bilinu 57 til 91 sentimetra langir og 2,3 til 9,0 kíló að þyngd. Gróft mat samhliða merkingum 2007–2010 sýndi að mesti fjöldi hrygningarfiska á riðunum í Efra-Sogi þessi ár var nálægt fjórir tugir fiska árið 2008. Áður hafði lítið fundist við athugun 2006.






×