Veiði

Stórir sjóbirtingar að sýna sig í Varmá

Karl Lúðvíksson skrifar
Elias með sjóbirtinginn góða
Elias með sjóbirtinginn góða
Það hafa nokkrir rígvænir sjóbirtingar fallið fyrir flugum veiðimanna í Varmá í vor en yfirleitt hverfur þessi stóri birtingur úr ánni í byrjun maí.

Það er nú samt ekki alltaf þannig og fyrir fáum dögum landaði Elías Pétur Þórarinssson 78 sm sjóbirting ásamt nokkrum fiskum til viðbótar úr þessari á sem er vaxandi veiðiá fyrir stórsilung.  "Ég og Ómar félagi minn hófum veiðar frekar seint í Varmánni þann 2.júní síðastliðinn eða ekki fyrr en um 17:00. Við vorum einir með ána svo við hófum veiðar á Stöðvarbreiðunni. Þar sáum við strax mikið líf eins og oft er við þennan fallega hyl. Við beittum, það sem ég myndi kalla, hefðbundinni aðferð, andstreymisveiði með dropper en fiskurinn lét ekki glepjast í þetta skipti. Við héldum áfram niður með ánni og veiddum afar vel, tókum tvær 4 punda bleikjur, tvo urriðatitti og loks nýgengna 70cm sjóbirtingshrygnu sem var þykk og falleg. Við ákváðum að kasta örfáum sinnum í Stöðvarbreiðuna áður en við hættum, nú með annari aðferð. Ég ákvað að láta á straumflugu sem ég hafði hannað og hnýtt kvöldið áður. Það þurfti einungis örfá köst til að setja í fisk".

"Ég fann strax að þessi var stærri en þeir sem við höfðum landað fyrr um daginn og skutum við á 5-7 pund. Eftir um korters baráttu stökk fiskurinn og þá sáum við fyrst hvurslags flykki þetta var. Ég get vel viðurkennt það að hjartað tók ágætis kipp og stressið fór í gang enda var ég með létta Hardy stöng fyrir línu 5 og 6 punda taum.  Það tók um 45 mínútur að ná fisknum á land. Þá var hann mældur í bak og fyrir og myndaður. Þessi fallegi urriðahængur var 78cm og með ummál uppá rúma 55cm!"  Eins og sést á myndinni er fiskurinn bæði þykkur og vel haldinn enda fæðuframboð í Varmá einstaklega gott þar sem áin er að jafnaði heitari en venjulegt getur talist vegna affallsvatns úr borholum sem fellur í ánna og viðheldu háum meðalhita.

"Þetta vor er búið að vera alveg hreint frábært hjá mér. Fyrsta ferð ársins var í minni uppáhaldsá, Víðidalsá, í tilraunaveiði á urriða og sjóbirting. Sú veiði kom skemmtilega á óvart. Ég veiddi með flottum veiðimönnum þessa daga, meðal annars þeim Stjána Ben, Valgarði Ragnarssyni, Höskuldi Birki og Róberti Daníel. Ætli við höfum ekki landað um 60 fiskum, mest urriðar og sjóbirtingar en einnig stöku niðurgöngulaxar. Stærsti fiskurinn sem ég fékk í Víðidalnum í þetta skipti var 69cm urriði sem var afskaplega sprækur.  Ég var einnig það heppinn að fá að kynnast nýrri á núna í vor, Minnivallalæk, en sú á er algjör paradís. Það er rosalega gaman að ganga upp með henni og sjónkasta púpum eða þurrflugum á stóra urriða."

Elías hefur einnig verið duglegur í veiða í Hólmsá í vor og gert þar góða veiði á þurrflugu og á púpur andstreymis.  Í sumar verður þessi knái veiðimaður við leiðsögn í Breiðdalsá og Jöklu þar sem veiðimenn geta komist í reynslukistuna hjá þessum efnilega veiðimanni.






×