Veiði

Hvað sem þú gerir ekki gleyma flugnaneti

Karl Lúðvíksson skrifar
Mývargur við Laxá.  Myndin er tekin 3. júní
Mývargur við Laxá. Myndin er tekin 3. júní Mynd: Bjarni Höskuldsson
Laxveiðitímabilið hófst í morgun með opnun Norðurár og Blöndu og næstu þrjá mánuði eiga innlendir og erlendir veiðimenn eftir að fjölmenna við bakkann þar sem reynt verður að fá silung eða lax til að taka fluguna.

Áður en haldið er í veiðitúrinn sest maður gjarnan niður og gerir smá tossalista svo ekkert gleymist.  Það er hálf vonlaust að vera alltaf sá sem þarf stanslaust að fá eitt og annað lánað frá veiðifélögunum og ekki síður er leiðinlegt að vera sá sem er alltaf vel búinn og þarf svo að lána frá sér, en góðir veiðifélagar hjálpast að og láta slíkt yfirleitt ekki fara mikið í taugarnar á sér.  Að einu dæmi undanskildu.  Ég var við veiðar ásamt nokkrum félögum á veiðisvæðunum neðan stiflu í Laxá í Aðaldal á svipuðum árstíma og núna fyrir nokkrum árum síðan.  Við ætluðum okkur að vera við ána í þrjá daga og það fór þess vegna drjúgur tími í að fara yfir það sem átti að vera með í ferðinni.  Matur, veigar, veiðidót og annað þurfti að vera í lagi.  Við mættum að kvöldi, settum saman stangirnar og biðum spenntir eftir því að fá að taka fyrstu köstin út í þessa mögnuðu á.

Við vorum allir mættir við bakkann klukkan sjö í smá kaldri norðangolu en þó þurru og björtu veðri og strax og við komum að ánni mátti sjá fyrstu fiskana taka flugur í yfirborðinu á breiðunni.  Við þessi skilyrði gerðum við fína veiði fyrstu tvo tímana en um klukkan níu lægði og hitnaði þegar vindáttin breyttist í suðlægar áttir.  Þá gerðist það.  Ég stóð útí á þegar svart risaský af mýi reis upp og um tíma var eins og þoka legðist yfir dalinn, en nei, þetta var mý!  Ég var snöggur að rífa upp flugnanet úr vöðlujakkanum og skella því á mig.  Ég hélt áfram að veiða með hávært suð og svart ský í kringum mig og let það ekki trufla mig of mikið þegar ég fann eitt og eitt bit á handarbökunum og nokkur  í andlitinu frá flugum sem höfðu fundið sér leið í gegnum netið.  Takan snarhætti eftir að áttinn breyttist svo ég dró inn og ætlaði að heilsa uppá félagana sem voru aðeins fyrir ofan mig.  Þegar ég kom gangandi að veiðistaðnum var engin þar en ég heyrði bílflaut og kom það frá jeppanum þeirra sem var lagður aðeins frá.  Þar sátu þeir inní bíl og voru búnir að vera þar í tvo tíma því engin hafði haft rænu á að taka með sér flugnanet.  Eina ráðið var því að keyra á Húsavík en þar sem þetta var Hvítasunnuhelgi var ekki mikið opið og engin net til þar sem var opið.  

Það er ekki mikið veitt þegar flugan verður svona þétt og ágeng þannig að ég hef haft þá reglu að taka alltaf með mér nokkur net og tvær tegundir af spreyi sem fælir mýið frá, því ég nenni ekki að eyða veiðitúr í bílnum.






×