Veiði

"Ég fæ aldrei neitt á Þingvöllum"

Karl Lúðvíksson skrifar
Fínar bleikjur veiðast oft í Þingvallavatni
Fínar bleikjur veiðast oft í Þingvallavatni Mynd af www.veidikortid.is
Þessa dagana berast ágætar fréttir af bleikjuveiði á Þingvöllum og flestir sem kíkja þangað upp eftir koma heim með bleikju í soðið.

Það er þó rétt að taka það fram að dagamunur getur verið á því hvort bleikjan er að taka eða ekki en þegar bleikjan gefur sig eru alltaf einhverjir veiðimenn sem fá ekkert, verða ekki einu sinni varir og fá ekki nart eða töku.  Það er von að hægt sé að svekkja sig á vera í þeirri stöðu en sem betur fer getur manni bara farið fram í veiði og til að læra á vatnið er um að gera að spyrja menn hvað fiskurinn sé að taka, vera duglegur að stunda vatnið og prófa nýja hluti.  Ágætur veiðimaður sendi mér póst í dag og ég ætla að deila þeim pósti með ykkur.

"Sæll Kalli, 

Ég er búinn að fara upp á Þingvallavatn í átta skipti núna í maí og ólíkt þeim veiðimönnum sem þú hefur sagt frá á Veiðivísi fæ ég aldrei neitt.  Ég er frekar nýbyrjaður í fluguveiði og á ágætis græjur sem ég held að séu passlegar fyrir vatnið.  Stöngin er fyrir línu sjö og ég á bæði flotlínu og hægsökkvandi línu.  Ég las það í frétt hjá þér um daginn að ein besta aðferðin væri að nota flotlínu, langann taum og tökuvara.  Ég hef notað þessa aðferð ásamt ansi mörgum flugum en fæ samt aldrei neitt.  Hvað er ég að gera vitlaust?"

Það er ekki auðvelt að svara þessu að að því gefnu að rétt sé staðið að öllu er kannski ein skýring sem gæti verið líkleg.  Þú ert ekki að veiða á réttum tíma dags.  Besta veiðin í Þingvallavatni er nefnilega oft eldsnemma á morgnana og seint á kvöldin, þá meina ég um miðnætti suma bjarta daga.  Þó ég sé sjálfur engin sérfræðingur í Þingvallavatni hef ég veitt mjög vel í vatninu og það var ekki fyrr en ég fór að mæta klukkan fimm á morgnana og veiða til tíu eða mæta um átta eftir kvöldmat og veiða til eitt á næturnar sem ég fór að koma heim með eitthvað á grillið.  Spurning um að prófa þetta?










×