Veiði

Veiði hefst á föstudaginn í Ytri Rangá

Karl Lúðvíksson skrifar
Mynd: www.veida.is
Veiði hefst í Ytri Rangá á föstudaginn og það er mikil spenna meðal veiðimanna og leigutaka enda hafa fystu laxarnir þegar sýnt sig í ánni.

Ytri Rangá hefur um árabil verið ein af aflahæstu laxveiðiánum á landinu og líka ein sú vinsælasta enda hefur veiðin afskaplega góð.  Nýir leigutakar tóku við ánni og er þetta fyrsta sumarið sem þeir eru með hana.  Þær breytingar hafa verið gerðar að stöngum var fækkað, verðið lækkað og veiðistaðir sem áður voru skilgreindir sem sérsvæði verða framvegis frísvæði.  Þetta minnkar veiðiálagið og gefur þeim sem dragast á "róleg" svæði tækifæri til að spreyta sig annars staðar.  Laxar hafa þegar sést í Djúpós og Borg sem er ekkert sem kemur mönnum á óvart enda báðir veiðistaðirnir mjög gjöfulir.  Djúpós heldur fiski meira og minna allt sumarið en Borg hefur yfirleitt verið talin meiri göngustaður en hann getur gefið mönnum ótrúlega veiði ef menn eru þar þegar göngurnar fara í gegn.  Þeir sem vilja skoða lausa daga geta kíkt á síðuna hjá Veiða.is en þar er yfirlit yfir lausa daga og verð.






×