Ólafur lék á 68 höggum eða þremur höggum undir pari á Hankley Common golfvellinum í Surrey, Englandi og varð efstur í mótinu. Tólf efstu kylfingarnir komust áfram í lokaúrtökumótið sem fram fer í næstu viku og fær Ólafur því gullið tækifæri á að verða fyrsti íslenski kylfingurinn til að leika í stórmóti.
Ólafur fékk sjö fugla á hringnum og þrjá skolla. „Pútterinn var samt sjóðandi heitur og setti ég mörg löng pútt niður. Þarf bara aðeins að fínpússa stuttu púttin. Ég notaði nánast einungis við 3-tré af teig því ég var að slá vel með því og það var líka alveg nóg því rúllið var mikið og boltinn skilaði sér langt,“ skrifar Ólafur Björn á Facebook síðu sína.
„Tók tveggja tíma æfingu eftir hringinn í dag og náði að stimpla boltasláttinn og stuttu púttin ágætlega inn.“
Fyrir sigurinn í mótinu fékk Ólafur um 150 þúsund krónur í verðlaunafé. Hann mun leika á ensku Europro mótaröðinni í vikunni áður en hann leikur í lokaúrtökumótinu fyrir Opna breska í næstu viku. Aðeins þrír efstu kylfingarnir tryggja sæti sæti í Opna breska.
