Veiði

Fengu 28 urriða á rúmlega tveimur tímum í Veiðivötnum

Karl Lúðvíksson skrifar
Eyjólfur með 10 punda urriða úr Hraunsvötnum sem er stærsti fiskurinn veiddur í Veiðivötnum í sumar
Eyjólfur með 10 punda urriða úr Hraunsvötnum sem er stærsti fiskurinn veiddur í Veiðivötnum í sumar Mynd: Bryndís Magnúsdóttir
Veiðin í Veiðivötnum fór rólega af stað fyrstu dagana en er greinilega að komast í fullann gang miðað við þær fréttir sem berast ofan úr vötnunum eftir helgina.

Það má líka sjá á samanburðartölum að veiðin núna er betri en árin 2012 og 2013 sem þóttu heldur rýr í vötnunum og það er mikið gleðiefni fyrir þá sem eiga daga á næstunni og vita sem er að þegar veiðin er góð í Veiðivötnum er fátt sem toppar það.  Mikið hefur veiðst bæði af bleikju og urriða en þess má geta að stærsti fiskurinn er 10.6 punda urriði sem veiddist í Hraunsvötnum en það er að verða árlegur viðburður að sjá stærstu fiskana úr þeim.  Við fengum fréttir af einum veiðimanni, sem er starfsmaður í veiðibúð í Reykjavík og þekkir vötnin afskaplega vel, sem gerði frábæra veiði í gærkvöldi þegar hann ásamt félaga sínum landaði 28 flottum urriðum og misstu annað eins á rétt rúmum tveimur tímum.  Því miður fylgir það ekki fréttinni í hvaða vatni þetta veiddist og verða engar getgátur settar fram um slíkt, en þetta er það sem má kalla frábæra veiði.  Þeir sem eiga eftir að tryggja sér viðileyfi geta kíkt á síðu veiðivatna www.veidivotn.is en þar eru laus leyfi og þau leyfi sem detta út auglýst.






×