Veiði

Varstu að veiða hrunárið 1984?

Karl Lúðvíksson skrifar
Mynd: KL
Það er búið að skrifa mikið og líklega ræða ennþá meira um hina slöku veiði í sumar í flestum ánum en er ástandið jafn slæmt og háværar raddir innan veiðisamfélagsins vilja meina?

Nú hefur t.d. mikið verið rætt um að það þurfi að friða ár, breyta öllum ánum í "Veitt og Sleppt" og banna maðkveiðar alveg, alls staðar!  Ástæður þessara oft tilfinningalegu samtala (lesist rifrildi) milli veiðimanna sem eru ekki sammála um aðgerðir eða aðgerðaleysi vegna aflabrests í sumar eru ýmsar og skoðanir á því hvað má eða hvað ætti að gera jafn margar og mennirnir sem ræða (lesist rífast) um þær.  Staðreyndin er sú að það hefur orðið mismikill aflabrestur í flestum ánum sem sést í skorti á eins árs laxi því veiðin á tveggja ára laxi og stórlaxi hefur ekki verið jafngóð í mörg ár og sumar árnar hafa hreinlega boðið uppá 70-80% hlutfall af stórlaxi þetta árið.

Ef smálaxagöngurnar hefðu ekki brugðist værum við á svipuðum stað og á sama tíma á metárinu 2013 þegar allir glöddust eftir góðu veiðitúrana og fengu að veiða á sitt agn og stunda sína tegund af veiðiskap í friði fyrir hvor öðrum.  Engin sagði neitt þegar húsbóndinn eða nágranninn kom heim með lax eftir túrinn og skellti honum á grillið.  Í dag er ástandið þannig að undirritaður myndi líklega sjálfur ekki tala um það eða þora að elda lax utandyra af ótta við að koma af stað reiðibylgju þeirra nágranna minna sem aðhyllast "Veitt og Sleppt" og vilja að það sé ávallt reglan og telja sig sérstaklega með góð rök á þessu annars lélega ári.  En það er ekki eins og það hafi ekki komið léleg ár áður.

Þar sem stundum hátt verð veiðileyfa veldur því að nýliðun í sportinu er frekar slöpp eldist sá hópur sem fer mikið í lax og/eða hefur efni á því og þar sem oft er sagt þegar ástand er svo slæmt "Að elstu menn muna ekki annað eins" þá skulum við aðeins sjá hvernig minni þessara ágætu manna er og skjótast aftur í tímann til veiðisumarsins 1984.

Þessi ágæti veiðimaður sem við ímyndum okkur er kannski 30 ára (60 ára í dag) og er á leiðinni í einn af sínum fyrstu veiðitúrum.  Hann er búinn að taka upp vinsældarlista Rásar 2 á segulbandið, alveg heilar 30 mínutur á hvorri hlið, og vonar að tækið lifi af ómalbikuðu kaflana upp í á.  En hvernig var svo veiðin þetta ágæta sumar og af hverju að staldra þar við?  Ég tók þetta ár út því öfgarnar í veiðitölum milli ánna er gífurlega mikið og þá skiptir landshlutinn ekki alltaf máli.  Þetta er bara smá sýnishorn og vinsamlegat athugið að það er ekki kafað í djúpar skýringar á aflatölum ánna:

Veiðin 1984

1. Langá á Mýrum á sitt versta ár með 610 laxa en fer í 1155 árið eftir

2. Hítará klárar með 151 lax en átti 7 slæm ár í röð, þetta er sjötta árið

3. Laxá í Kjós er með 1273 laxa og þarna var veitt á meira en bara flugu

4. Laxá í Dölum með 903 en stekkur í 1600 laxa árið 1985.  1980 veiddust 324 laxar, virðist ekki hafa haft áhrif á framhaldið

5. Miðfjarðará 583 laxar en næstu ár á eftir skila 1059 og 1719 löxum

6. Laxá í Aðaldal er með 1256 laxa, hver væri ekki til í að sjá svoleiðis tölu aftur? Árið eftir í 1911 laxa, vel gert Laxá!

7. Svalbarðsá, 29 laxar eða 58 flök af reyktu eða gröfnu, svona rétt í eitt lítið ættarmót

8. Selá í Vopnafirði 123 laxar en fer í 627 árið eftir

9. Stóra Laxá skilar 707 löxum en hrynur í 183 árið eftir, en hún er alltaf dyntótt

Og síðast en ekki síst...

10. Hofsá með 185 laxa.  Nema hvað að veiðin árið eftir 1985 er 1219 laxar.

Þetta er bara brot af öfgum í veiði og það á árum sem maðkveiði var meira stunduð og Veitt og Sleppt var bara hugtak sem kvensamir menn notuðu á böllum með Brimkló.

Veiðimenn verða að sýna þolinmæði og leyfa þessu sumri að líða og sjá hvernig árnar standa sig.  Þegar vísindinn vita lítið vita áhugamenn oft minna og því miður eru þeir þættir sem skipta gífurlega miklu máli þegar laxgengd er annars vegar lítið þekktir, þ.e.a.s. hvað gerist í hafinu.  Fyrr en meira liggur fyrir af gögnum sem hægt er að vinna úr er lítið sem ekkert hægt að segja hvernig næsta sumar eða næstu sumur verða.  Ef þú ert ekki viss þarf bara að lesa 1-10 listann hér að ofan aftur.

Sumar ár þola vel að úr þeim séu hirrtir laxar en aðrar ekki, eins þola sumar ár maðkveiði og aðrar ekki.  Hér verða veiðiréttareigendur, leigutakar og þær stofnanir Ríkisins sem fara með þessi málefni að tala saman og reyna að mynda heildarstefnu sem þó er það sveigjanleg að hún tekur tillit til breytileika laxveiðiánna.  Það græðir engin á dauðri auðlind sem tóm laxveiðiá er þess vegna hljóta þeir sem veiða árnar og þeir sem eiga árnar allir að hafa það sameiginlega markmið að vilja ganga vel um þær svo komandi kynslóðir geta notið þess að veiða líkt og við erum að gera í dag.  En átök í grein sem á að vera mönnuð heiðursmönnum (Gentlemen if you please) er ekki sportinu til fyrirmyndar og hér gildir líklega sama lögmál og annars staðar að bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum og viðhorfum.  Þangað til vísindin segja okkur hvað er í gangi getum við ekki verið sammála um að vera ósammála og veitt bara eins og vinir?








×