Töluverð samstaða virðist ríkja á meðal tónlistarmanna vegna Off Venue-dagskrár Iceland Airwaves, ef marka má umræður sem skapast hafa á Facebook-vegg Péturs og sjá má hér að neðan.
Í samtali við Vísi segir Pétur það hafa verið lensku í kringum Off Venue-dagskrána að það sé sjálfsagður hlutur að tónlistarfólk komi fram en ekkert sé rætt um að borga fyrir tónleika.
„Ég setti þetta bara svona fram til að hvetja tónlistarmenn til að standa saman og setja einhvern lágmarksstandard varðandi greiðslur fyrir að spila Off Venue,“ segir Pétur.

Í stöðuuppfærslunni talar Pétur um „lopavettlinga“ sem hann segir almenna myndlíkingu fyrir túristabúðir á Íslandi.
Hann segir að á flestum stöðum hafi tónlistarmenn ekki fengið greitt fyrir að koma fram. Í einhverjum tilfellum sé þó mikil kynning fólgin í því að spila Off Venue, eins og t.d. á Kex Hostel sem hefur verið í samstarfi við Kexp, stóra tónlistarstöð í Seattle, og sent marga tónleika út beint.
„Það er því allur gangur á þessu og tónlistarmaðurinn verður auðvitað að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvort hann vilji spila frítt. Við ættum samt að bera meiri virðingu fyrir sjálfum okkur en að taka boði um að spila fyrir súpu og kaffi,“ segir Pétur.
Fjöldi erlendra listamanna hefur komið fram á Iceland Airwaves í gegnum árin, þ.á.m. Hot Chip, Flaming Lips og Florence and the Machine.
„Þó að mikið af erlendum tónlistarmönnum spili á hátíðinni þá er stemningin sköpuð af íslenskum tónlistarmönnum,“ segir Pétur.