Veiði

Handtók maríulaxinn sinn í Affallinu

Karl Lúðvíksson skrifar
Eitt stykki handtekinn maríulax
Eitt stykki handtekinn maríulax
Affallið í Landssveit hefur verið vinsælt hjá vinahópum enda hafa veiðileyfin verið í ódýrari kantinum en veiðin engu að síður verið mjög góð.

Það sem dregur hópana í ánna er líka að þar sjá veiðimenn um mat sjálfir og elda í veiðihúsi sem fylgir með veiðileyfunum.  Þær ár sem bjóða uppá þetta hafa verið mjög vinsælar og þá sérstaklega hjá Íslendingum en erlendir veiðimenn eru þó farnir að sækja meira í þennan möguleika.  Halldór Gunnarsson fór fyrir hóp veiðimanna og félaga sem gerðu ágætis veiði í Affallinu fyrir stuttu og þeir sendu okkur smá sögu af veiði og veiðiaðferðum.

Vorum að koma úr Affallinu 7 félagarnir. Þetta er okkar fyrsta skipti hérna og var þessi ferð alveg svakalega skemmtileg. Lentum í ýmsum ævintýrum, sumu sem ekki mun fara í prent, en einnig öðrum skemmtilegri atvikum sem ekki gerast oft. Einn úr hópnum náði til að mynda 80cm, 10 punda maríulaxi, sem er svosem ekki frásögum færandi nema fyrir þær sakir að hann náði honum með höndunum einum. Hann var búinn að koma auga á þennan lax í hyl einum og var búinn að vera að elta hann upp með ánni. Og var búinn að vera að kasta á hann flugu fram og til baka og setja í hann tvisvar. Alltaf missti hann laxinn sem fældist smá, en kom svo alltaf stuttu síðar aftur og lagðist upp við bakkann í einhverjum hyl.

Það var kominn nettur pirringur í hann þar sem allir voru komnir með fisk nema hann. Hann hugsaði að núna er bara að duga eða drepast, sneri húfunni við, henti frá sér stönginni, úr vöðlujakkanum og ermar brettar upp. Svo var farið niður í hylinn fyrir neðan fiskinn, hendurnar kældar niður og einhvernvegin nær hann að setja hendurnar undir hann án þess að fæla hann. Grípur um sporð og undir maga og nær að vippa honum upp á bakkann.  80 cm, 10 punda hrygna lá í valnum, og geri aðrir betur með maríulaxinn sinn.  Annars gerði hollið það ágætt og enduðum við í 13 löxum og misstum álíka mikið. Mest voru þetta mjög vænir laxar 80-89cm.  Affallið er mjög skemmtileg nett á sem er frekar auðveld yfirferðar. Hinsvegar mættu bændur eða veiðiréttarhafar laga merkingar að veiðistöðum og aðgæta að vera ekki í námagrefri við helstu hyli árinnar, sem við lentum í.








×