Veiði

64 sm bleikja úr Varmá og vænir sjóbirtingar

Karl Lúðvíksson skrifar
64 sm bleikjan sem Ómar fékk í Varmá
64 sm bleikjan sem Ómar fékk í Varmá Mynd: Ómar Smári
Þá er loksins farið að bera á góðum göngum af sjóbirting á þeim slóðum þar sem hann er algengastur og fréttir farnar að berast af aflabrögðum.

Það á eftir að bera á auknum fréttum af sjóbirtingsslóðum á vefnum enda er sá tími að renna í garð þar sem veiðimenn sækja í árnar þar sem stórir birtingar liggja.  Árnar þurfa þó ekki alltaf að vera stórar eða langt í burtu til að vera góðar en við höfum áður nefnt þær ár sem eru í næsta nágrenni Reykjavíkur sem hafa sterka sjóbirtingsstofna.  Þeirra á meðal er Varmá sem rennur í gegnum Hveragerði.  Ómar Smári Óttarsson var þar í fyrradag og það verður ekki annað sagt en að honum hafi gengið vel en á meðal fiska sem hann landaði var 64 sm bleikja en svoleiðis stórfiskar eru orðnir ansi algengir í ánni.  Ómar sendi nokkrar línur þar sem hann segir frá þessum góða degi:

Það gekk bara ágætlega í Varmá.  Ég var við veiðar í svona 3 tíma og ég prufaði Stöðvarbreiðu, Reykjarfoss, Frost og Funa og Gólfhylinn.  Fyrsti fiskurinn kom á land í Gólfhylnum en það var  53 cm sjóbirtingur sem var alveg brjálaður.  Hann tók í fyrsta kasti þýska snældu og það var frábær barátta.  Ég hélt fyrst að ég væri með svona 8 - 10 punda fisk á.  Ég var með sjöuna mína og hún var alveg í rugli en síðan eftir svona 10 min kom hann á land flottur sjóbi. Síðan var prufað að kasta í Reykjarfoss.  Ég kom að fossinum og sá strax fisk stökkva svona,  10 punda lax, síðan strax á eftir alveg risa birtingur.  Ég kastaði og kastaði en það bara gerðist ekkert.  Þá fór ég á Stöðvarbreiðu og ég byrjaði bara á að kasta púpu en ekkert gerðist.  Þá prufaði ég hvítan Nobbler án árangurs.  Þá setti ég undir þýska snældu eins og ég gerði í Gólfhylnum og strax í fyrsta kasti var tekið og það var þung taka.  Svo stökk bleikjan! Spikfeit belja sem ekkert var hægt að ráða við.   En eftir góðar 15 min náði ég bleikjunni á land og var hún 64 cm og spikfeit.   Ég var heldur betur sáttur með daginn.  Varmáinn er alveg pökkuð af fiski.






×