Íslenski boltinn

Glenn kýldi KR-ing | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonathan Ricardo Glenn, markahæsti leikmaður Pepsi-deildar karla, gaf Guðmundi Reyni Gunnarssyni harkalegt olnbogaskot í leik KR og ÍBV í Frostaskjólinu á sunnudaginn var.

Eins og sést á myndbandinu hér að ofan rekur Glenn olnbogann í hnakka Guðmundar þegar boltinn er víðsfjarri. Guðmundur lá eftir, en hvorki dómari leiksins, Guðmundur Ársæll Guðmundsson, né línuvörðurinn þeim megin sem atvikið átti sér stað sáu neitt athugavert við viðskipti Glenn og Guðmundar.

Atvikið átti sér stað skömmu fyrir leikhlé, en á þeim tímapunkti leiddi ÍBV með marki Glenn úr vítaspyrnu. Gary Martin jafnaði metin fyrir leikhlé, en eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik kom Glenn Eyjamönnum yfir á ný með stórglæsilegu marki.

Leikurinn endaði með 3-3 jafntefli, en Eyjamenn eru svo gott sem öruggir með sæti sitt í Pepsi-deildinni að ári.

Atli Sigurjónsson, leikmaður KR, birti í dag myndband af atvikinu á Twitter-síðu sinni undir yfirskriftinni „Má þetta?“

Svarið við því ætti að vera nokkuð augljóst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×