Hlynur Svan Eiríksson, þjálfari Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu, heldur ekki áfram starfi sínu hjá félaginu.
Í fréttatilkynningu frá Breiðabliki segir að stjórn knattspyrnudeildar og Hlynur hafi komist að samkomulagi um að ljúka samstarfinu.
Hlynur gerði Breiðablik að bikarmeisturum í fyrra og er ljóst að liðið hafnar í öðru sæti Pepsi-deildarinnar í ár, annað árið í röð.
Fréttatilkynningin:
„Stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks og Hlynur Svan Eiríksson hafa komist að samkomulagi um að ljúka samstarfinu í meistaraflokki kvenna hjá félaginu. Þetta var sameiginleg niðurstaða og nú, að henni fenginni, er leit að eftirmanni Hlyns hafin.
Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar Hlyni fyrir góð störf fyrir félagið. Undir hans stjórn varð Breiðablik bikarmeistari á síðustu leiktíð og hreppti annað sætið í Pepsí deild kvenna í ár.
Hlynur Svan þakkar jafnframt knattspyrnudeildinni fyrir það tækifæri sem hann fékk og þeim flotta hópi Breiðablikskvenna sem hann þjálfaði fyrir samstarfið. Hlynur óskar liðinu velfarnaðar í framtíðinni.“

