Stjarnan beið lægri hlut fyrir rússneska liðinu Zvezda 2005 í seinni leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í dag. Lokatölur urðu 3-1, Zvezda í vil, en leikið var í Perm í Rússland.
Zvezda vann fyrri leik liðanna á Samsung-vellinum með fimm mörkum gegn tveimur og því var ljóst að Stjörnustúlkna beið nánast ómögulegt verkefni í dag. Málið vandaðist enn frekar eftir 17. mínútna leik þegar Lára Kristín Pedersen var rekin af velli vegna tveggja gulra spjalda.
Fyrsta mark rússneska liðsins kom eftir aukaspyrnuna sem Lára fékk á sig, en markið skoraði Lyubov Kipyatkova. Staðan var 1-0 í leikhléi, en eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik tvöfaldaði Daryna Apanaschenko forskotið.
Anastasia Pozdeeva skoraði svo þriðja mark Zvezda á 64. mínútu áður en Anna Björk Kristjánsdóttir minnkaði muninn í 3-1 á 75. mínútu. Tveimur mínútum áður fékk fyrirliði Zvezda, Elena Suslova, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Það var því jafnt í liðum síðustu 17 mínútur leiksins.
Rússarnir fengu tækifæri til að skora fjórða markið á 78. mínútu, en Sandra Sigurðardóttir varði vítaspyrnu Apanaschenko.
Fleiri urðu mörkin ekki og Zvezda fór því áfram í 16-liða úrslitin, 8-3 samanlagt.
Byrjunarlið Stjörnunnar var þannig skipað:
Sandra Sigurðardóttir
Anna María Baldursdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir
Anna Björk Kristjánsdóttir
Kristrún Kristjánsdóttir
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir
Lára Kristín Pedersen
Írunn Þorbjörg Aradóttir (90. Helga Franklínsdóttir)
Sigrún Ella Einarsdóttir (58. Elva Friðjónsdóttir)
Harpa Þorsteinsdóttir
Marta Carissmi (81. Bryndís Björnsdóttir).
