Tveir góðir vinir leiða á DP World Tour Championship sem fram fer í Dubai en það er Írinn Shane Lowry og sjálfur Rory McIlroy. Þeir félagar léku fyrsta hring á hinum glæsilega Jumeirah velli á 66 höggum eða sex undir pari og deila forystusætinu.
Í öðru sæti á fimm höggum undir pari koma þeir Richie Ramsey og Thornborn Olesen en sigurvegarinn frá því í fyrra, Henrik Stenson kemur á eftir þeim á fjórum höggum undir pari eftir hring upp á 68 högg.
DP World Tour Championship er síðasta mót Evrópumótaraðarinnar í ár en aðeins 60 bestu kylfingar hennar fá þátttökurétt.
Þá vekur athygli að Bandaríkjamaðurinn, Brooks Koepka, sem sigraði glæsilega á Turkish Airlines Open sem fram fór í síðustu viku, er í síðasta sæti eftir fyrsta hring en hann kom inn á 78 höggum í dag eða sex yfir pari. Það er greinilega skammt stórra högga á milli í golfheiminum en kannski hefur Koepka farið of geyst í fagnaðarlætin eftir sigurinn um síðustu helgi.
Sýnt verður beint frá mótinu alla helgina en útsending frá öðrum hring hefst klukkan 08:00 í fyrramálið.
