Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, var að vonum sáttur með tíu marka sigur á Makedóníu í Laugardalshöll í kvöld, en með sigrinum gulltryggði Ísland sér sæti í umspili um sæti á HM 2015 í Danmörku.
"Ég var mjög ánægður með leik liðsins. Stelpurnar hafa staðið sig gríðarlega vel í öllum þessu þremur leikjum.
"Þetta var fyrsti sigur okkar á Makedóníu í kvennaboltanum í sögunni. Mér fannst við spila fantagóðan handbolta í kvöld," sagði Ágúst sem játti því að þetta væri besti leikurinn sem Ísland hefur spilað á síðustu dögum.
"Sóknarleikurinn var frábær og tempóið á leik liðsins var mjög gott, við skoruðum mikið af mörkum eftir hraðaupphlaup, bæði fyrstu og aðra bylgju.
"Heildarsvipurinn á liðinu var góður," sagði Ágúst sem kvaðst einnig ánægður með að íslenska liðið tapaði færri boltum en gegn Ítalíu á sunnudaginn.
"Við löguðum það sem við vorum í vandræðum með í síðasta leik gegn Ítalíu. Við fórum vel yfir þetta og töpuðum mun færri boltum."
Aðspurður um frammistöðu Karenar Knútsdóttur, sem skoraði 14 mörk í kvöld, hafði Ágúst þetta að segja:
"Þetta var stórkostleg frammistaða, það er fátt annað hægt að segja. Hún hefur stigið upp og sérstaklega eftir að hún tók við fyrirliðabandinu.
"Hún er mikill leiðtogi og er leikmaður í mjög háum gæðaflokki. Það eru ekki margir miðjumenn í heiminum sem eru að spila eins og hún er að gera," sagði Ágúst um landsliðsfyrirliðann.
En hvernig mun íslenska liðið nálgast seinni leikinn gegn Makedóníu í Skopje á laugardaginn?
"Við komum af fullum krafti inn í þann leik. Við þurfum að halda áfram að bæta leik liðsins og vinna í okkar varnarleik," sagði Ágúst að lokum.

