Anna María er sjálfstætt starfandi myndlistarmaður. Hún vinnur í vefstól og stundar spunagjörninga og kveðst hafa ofið verkin í SÍM-salnum sérstaklega inn í það rými. Hún klippir og sker niður notuð föt og vefur úr lengjunum. Gallabuxurnar eru bláar en bolirnir í mismunandi litum og draga verkin heiti sín af litunum.

Síðast var Anna María með í útimyndlistarsýningunni Undir berum himni í Reykjavík síðasta sumar og á sama tíma sýndi hún á samsýningunni Muu maa/Another country í Finnlandi. Hún mun eiga verk á stórri samsýningu sem nefnist What is textil? og opnuð verður í Edinborg í byrjun febrúar. „Framlag mitt þar er tuskuveggteppi með rósabandi og annað úr ljósmyndum sem ég spann,“ lýsir hún.
Hún er enn með rósabandsuppsetningu í vefstólnum sem hún kveðst ætla að halda áfram með en ekki enn hafa ákveðið hvert ívafið verður. „Annars er ég að hekla húfur fyrir þá sem hjálpuðu mér að setja upp sýninguna,“ segir hún að lokum.
Sýningin verður opin alla virka daga frá klukkan 10 til 16 fram til 24. janúar.