Tónlist

Friðrik kveður í kirkjum landsins

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Friðrik Ómar Hjörleifsson kemur fram á fimmtán tónleikum í fimmtán kirkjum út um land allt.
Friðrik Ómar Hjörleifsson kemur fram á fimmtán tónleikum í fimmtán kirkjum út um land allt. Mynd/Gassi
Platan Kveðja með Friðriki Ómari Hjörleifssyni kom út í nóvember og varð hún ein sú mest selda á landinu fyrir jólin. Á henni eru sálmar og saknaðarsöngvar fluttir af Friðriki Ómari í frábærum útsetningum hans sjálfs og Þóris Úlfarssonar píanóleikara. Vegna mikillar eftirspurnar hefur verið ákveðið að fylgja velgengni plötunnar eftir í kirkjum víðs vegar um landið í mars og apríl.

Til að auka á upplifun gesta hefur grafíski hönnuðurinn Ólöf Erla Einarsdóttir hannað hreyfimyndir sem sýndar verða meðan á tónleikunum stendur. Ólöf Erla hefur hlotið ýmsar viðurkenningar hérlendis og erlendis fyrir draumkennda og ævintýralega grafík sína.

Saman munu þau sjá til þess að gestirnir upplifi tilfinningaríka stund þegar lög eins og Hærra minn guð til þín, Heyr mína bæn, Kveðja, Söknuður, Í bljúgri bæn og Ave Maria verða flutt af Friðriki Ómari og félögum. Tónleikaferð Friðriks Ómars um kirkjur landsins hefst í Grafarvogskirkju í kvöld klukkan 20.30 og er miðasala við innganginn.



Tónleikadagsetningar:

20.mars: Grafarvogskirkja

26. Mars: Keflavíkurkirkja

27.mars: Hafnarfjarðarkirkja

2. apríl: Laugarneskirkja

3. apríl: Lágafellskirkja

8. apríl: Blönduóskirkja

9. apríl: Siglufjarðarkirkja

10. apríl: Dalvíkurkirkja

11. apríl: Húsavíkurkirkja

12. apríl: Vopnafjarðarkirkja (kl.16:00)

12. apríl: Þórshafnarkirkja

13. apríl: Norðfjarðarkirkja

14. apríl: Seyðisfjarðarkirkja

16. apríl: Hafnarkirkja






Fleiri fréttir

Sjá meira


×