Hljómsveitin sem ætlar að leika lög Led Zeppelin er skipuð, ásamt Gulla Briem, þeim Þóri Úlfarssyni, Kristjáni Grétarssyni, Eyþóri Úlfari Þórissyni, Inga Birni Ingasyni en söngvarar kvöldsins eru þeir Eiríkur Hauksson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Stefán Jakobsson og Dagur Sigurðsson. Sérstakir gestir eru þeir Birgir Haraldsson söngvari og Sigurgeir Sigmundsson, gítarleikari úr Gildrunni.

Led Zeppelin er af mörgum talin ein áhrifamesta rokkhljómsveit allra tíma. Hún er meðal mest seldu listamanna heimsins og hefur selt um 300 milljón plötur á heimsvísu. „Þetta er krefjandi tónlist og við höfum æft stíft að undanförnu,“ segir Gulli spurður út í undirbúninginn.
500 krónur af hverjum seldum miða renna til Mottumars, söfnunarátaks Krabbameinsfélagsins.
Á þessum tónleikum verða spiluð bestu lög þessarar frábæru hljómsveitar. Uppselt er á fyrri tónleikana klukkan 20.00 en þó eru enn til örfáir miðar á aukatónleikana sem hefjast klukkan 23.00. Miðasala fer fram á miði.is.