„Við fengum boð frá bókunarskrifstofunni okkar, Dragon Productions, um að fara í þennan túr og vorum heldur betur til í það, þetta er risaband,“ segir Bibbi spurður út í ferlið. Hann segist hafa þekkt Eluveitie mjög vel fyrir. „Ég hef vitað af bandinu í svona tíu ár. Ég veit að hljómsveitir bíða í röðum eftir því að fá að fara á túr með þeim,“ bætir Snæbjörn við.
Skálmaldarmenn eru um þessar mundir lokaðir inni í æfingarhúsnæði sínu við lagasmíðar. „Við erum að semja á fullu og ætlum að vera komnir með plötu þegar við förum í þennan túr.“ Skálmöld stefnir á að gefa út nýja plötu í september- eða októbermánuði.