Veiði

Það liggja dauðir urriðar á botni Þingvallavatns segir Kárastaðabóndinn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Í Fréttablaðinu í gær sagði frá kæru á hendur Einari S. Ólafssyni vegna veiða og dráps á urriða í Þingvallavatni.
Í Fréttablaðinu í gær sagði frá kæru á hendur Einari S. Ólafssyni vegna veiða og dráps á urriða í Þingvallavatni.
„Það að veiða urriða og sleppa honum er svo mikil vitleysa að það skilur þetta enginn sem býr hérna við vatnið,“ segir Þóra Einarsdóttir, ábúandi á ríkisjörðinni Kárastöðum á Þingvöllum.

Eins og fram hefur komið kærði þjóðgarðurinn Einar S. Ólafsson fyrir að veiða og drepa urriða í Þingvallavatni fyrr í þessum mánuði. Bannað er að drepa urriða í landi þjóðgarðsins auk þess sem Einar kveðst hafa veitt á spún, sem er ekki leyfilegt agn fyrr en 1. júní.

„Hann var í mínu landi og með fullu leyfi frá mér og ég vissi ekkert af þessum reglum,“ segir Þóra um veiðiferð Einars. „Ég vissi ekki að ég væri sett undir þjóðgarðslög fyrr en lögfræðingur Þingvallanefndar hringdi í mig fyrir helgi.“

Ekki látin vita af breytingum

Ekki hefur náðst tal af lögmanni þjóðgarðsins né svör fengist frá formanni Þingvallanefndar og þjóðgarðsverði en vísað mun til laga frá 2004 sem sett voru þegar þjóðgarðurinn var stækkaður að suðurmörkum Kárastaðalandsins.

„Maður er sár yfir að lögum og reglum sé breytt án þess að það sé talað við mann. Mér fyndist almenn kurteisi að láta mann vita. Mér finnst þetta rosaleg frekja. Ég hélt að ég hefði öll hlunnindin hér,“ segir Þóra sem þess utan er ekki hrifin af þeirri reglu að sleppa beri veiddum urriða.

„Að veiða og sleppa? Hvaða helvítis hálfviti veiðir svoleiðis? Geta menn þá ekki bara veitt í baðkarinu heima hjá sér?“ segir húsfreyjan á Kárastöðum, sem dregur í efa að urriði sé í útrýmingarhættu í Þingvallavatni. Tilgangslaust sé að sleppa veiddum fiskum til að hlífa stofninum.

Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur segr skynsamlegt að sleppa veiddum urriða í Þingvallavatni lifandi.Fréttablaðið/Garðar
Tek ekki þátt í vitleysu

„Þeir sem búa í 101 eru svo vitlausir að halda að þeir viti allt þótt þeir viti ekki neitt. Það vita allir sem búa við vatnið að urriðinn drepst þegar hann er veiddur svona, enda er vatnið fullt af dauðum urriða. Hvaða skepna halda menn að þoli þetta?“

Þóra hefur þegar selt talsvert af veiðileyfum fyrir sumarið til eigenda frístundahúsa í Kárastaðalandinu.

„Ég tek ekki þátt í þessari vitleysu að veiða og sleppa og ætla að friða vatnið til 1. júní,“ segir Þóra um næstu skref þótt hún játi að hún viti ekki alveg hvernig hún eigi þá að snúa sér gagnvart þeim sem þegar hafi keypt leyfi.

Þóra bætir við að hún skilji alls ekki þá ákvörðun Þingvallanefndar að flýta upphafi veiðitímabilsins frá 1. maí til 20. apríl ef friða eigi urriðann.

„Það eru allir að veiða urriða þá og það væri miklu nær að friða til 1. júní. Þessir andskotar í 101. Það á að búa til borgarvirki og halda Reykvíkingum innan borgarmarkanna og leyfa okkur landsbyggðarfólkinu bara að vera í kyrrð og ró,“ segir Þóra Einarsdóttir.

Fiskifræðingur talar fyrir sleppingum

Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur, sem rannsakað hefur urriða í Þingvallavatni í 15 ár, meðal annars með styrkjum frá Þingvallanefnd, segir það bæði skynsamlegt og eðlilegt að sleppa Þingvallaurriða.

„Þótt ekki sé búið að samræma veiðireglur á öllum veiðisvæðum Þingvallavatns þá verður að gera þá kröfu til veiðimanna sem veiða á svæðum þar sem engar takmarkanir eru á urriðaveiði að þeir taki mið af þeim ráðandi tíðaranda sem ríkir nú í umgengni veiðimanna við urriðana. Annað er í reynd óvirðing við bæði Þingvallaurriðann og þá sem standa vörð um hann með ýmsu móti,“ skrifar Jóhannes á vefsíðu fyrirtækisins Laxfiska.






×