Veiði

Aukin veiði fjölgar refum

Brjánn Jónasson skrifar
Halda ætti utan um hversu mikið æti veiðimenn setja út til að lokka til sín refi segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Halda ætti utan um hversu mikið æti veiðimenn setja út til að lokka til sín refi segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Fréttablaðið/Vilhelm
Aukin refaveiði hefur ekki skilað tilætluðum árangri og svo virðist sem veiðin hafi frekar orðið til þess að refum fjölgi en fækki, segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Ástæðan er aukin áhersla á vetrarveiði, sem fer þannig fram að egnt er fyrir refina með því að bera út æti og þeir skotnir þegar þeir koma nærri. Ester segir margt benda til þess að allt of mikið æti sé sett út og þar sem það sé ekki vaktað öllum stundum verði það til þess að refir sem ella hefðu soltið í hel yfir veturinn nái að komast í fæði og lifa af.

Alls voru 84 þúsund refir drepnir á sautján ára tímabili, frá 1995 til 2012. Kostnaðurinn við veiðarnar var um 1,6 milljarðar, uppreiknað á verðlag ársins í ár, segir Ester.

Refastofninn náði lágmarki um 1970, en þá hafði langt kuldaskeið farið illa með stofninn, segir Ester, auk þess sem eitrunarherferð hafði áhrif. Síðan hefur refastofninn verið á uppleið og tók sérstakan kipp upp úr 1997.

„Það voru sett ný lög um friðun refsins árið 1994, og eftir að þau lög tóku gildi, sérstaklega árið 1997, var farið í sérstakt veiðiátak,“ segir Ester. „Þá var meiri áhersla lögð á vetrarveiðar og minni á grenjavinnslu, sem getur verið dýr og tímafrek.“

Ester segir að um 500 veiðimenn hafi unnið á þessum 84 þúsund dýrum. Margir þeirra leggi út talsvert mikið æti. Þegar það bætist við náttúrulegt fæðuframboð refsins á erfiðasta tíma ársins hafi það áhrif.

Hún leggur til að haldið verði utan um hversu mikið æti sé lagt út. Það gæti jafnvel verið ódýrari aðgerð til að fækka dýrunum að hætta að leggja út æti fyrir refi yfir veturinn. Verkefnin eru önnur í Skandinavíu, þar sem tófunni hefur fækkað gríðarlega, og hún er í mikilli útrýmingarhættu. Þar hafa vísindamenn komist að því að besta leiðin til að styrkja stofninn sé að setja út æti að vetrarlagi, segir Ester.

Rebba fjölgar Á bilinu 10 til 13 þúsund tófur eru í íslenska stofninum, þrátt fyrir að 84 þúsund dýr hafi verið veidd á árabilinu 1995 til 2012. Fréttablaðið/vilhelm
Pólfari með þykkastan feld allra dýra

  • Refastofninn á Íslandi er talinn vera á bilinu 10 til 13 þúsund dýr.
  • Tófan er ein af þrettán refategundum í heiminum og sú tegund sem býr nyrst allra.
  • Aðeins 200 dýr af sömu tegund og íslenska tófan eru eftir í Skandinavíu. Álíka margir vísindamenn vinna að rannsóknum á stofninum.
  • Ekkert spendýr hefur fundist nær Norðurpólnum en tófan, ekki einu sinni ísbjörn.
  • Tófan er vel aðlöguð kulda og er með þéttastan feld allra dýra að vetrarlagi. 
  • Tófan getur þolað allt að 70 gráða frost, þrátt fyrir að hún safni ekki miklu fitulagi.





×