Veiði

Varar jarðeigendur við yfirgangi Þingvallaþjóðgarðs

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kyrrðin í friðlandinu á Þingvöllum hefur verið rofin með deilum um veiðirétt og veiðireglur við vatnið.
Kyrrðin í friðlandinu á Þingvöllum hefur verið rofin með deilum um veiðirétt og veiðireglur við vatnið. Fréttablaðið/Pjetur
Einar S. Ólafsson.
„Ég, veiðiþjófurinn, ætla að leggja hérna nokkur orð í belg,“ segir Einar S. Ólafsson stangveiðimaður sem kærður hefur verið af þjóðgarðinum á Þingvöllum fyrir veiðar og dráp á urriða í vatninu.

Setningin að ofan er upphaf greinar Einars sem birtist á Vísi í dag. Einar kveðst þar fljótlega hafa verið viss um að fleira hafi hangið á spýtunni hjá þjóðgarðsverði á Þingvöllum en að kæra veiðimann með nokkra urriða.

„Enda kom í ljós að í kæru lögfræðings Þingvallanefndar, þar sem ég er kærður fyrir „meintar ólöglegar veiðar“, er setning sem er forsenda kærunnar og afhjúpar raunverulegan tilgang hennar, að ég tel. Setningin er eitthvað á þessa leið að lögmaður Þingvallanefndar efast um lögmæti veiðileyfasölu Kárastaða í Þingvallasveit. Á íslensku: Þingvallanefnd ásælist veiðirétt ábúenda á Kárastöðum,“ skrifar Einar.

Ólafur Örn Haraldsson.
Til að skýra málið segir Einar að samkvæmt laxveiðilögum séu laxveiðar í sjó bannaðar nema á lögbýlum sem hafa hlunnindi af slíkum veiðum og skapast hafi hefð fyrir. Því sé hefð fyrir hlunnindaveiðum sterkari en lögin.

Því verði erfitt að finna dómara sem dæmir veiðirétt í Þingvallavatni af Kárastöðum. Sú jörð er í eigu ríkisins og hefur öll verið innan þjóðgarðsins frá árinu 2004 en er leigð til ábúanda.

„Hér er, með óttalega subbulegri stjórnsýslu, verið að reyna að stækka áhrifasvæði sitt. Þjóðgarðsvörður hefur látið út úr sér setningar sem allar bera þess keim að til standi að víkka út tjaldhælana, eins og: Ætli það sé ekki best að kaupa upp netaveiðirétt bænda í vatninu, og:

Ef að það reynist rétt að verið sé að drepa urriða veiddan í net og á stöng í stórum stíl í vatninu, verður að bregðast við því. Í báðum ofangreindum setningum talar hann eins og sá sem valdið hefur,“ segir Einar og brýnir fyrir jarðeigendum við vatnið að standa saman.

Sigrún Magnúsdóttir.
„Land þjóðgarðsins, það land sem þjóðgarðurinn raunverulega á, er einungis lítill hluti af því landsvæði sem að vatninu liggur og er það einlæg ráðlegging mín til allra sem eiga hagsmuna að gæta, að spyrna við því karlmannlega fótum að áhrif þjóðgarðsmanna verði meiri við vatnið en sem nemur því hlutfalli,” segir Einar í grein sinni sem lesa má á Vísi.

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður og Sigrún Magnúsdóttir, formaður Þingvallanefndar, hafa ekki svarað fyrirspurnum Fréttablaðsins varðandi þetta mál.


Tengdar fréttir

Ég, veiðiþjófurinn

Ég, veiðiþjófurinn, ætla að leggja hérna nokkur orð í belg. Ég hef verið að velta því fyrir mér síðan þetta mál kom upp, hvernig á því gæti staðið að þjóðgarðsvörður legði svona mikið upp úr því að kæra veiðimann með nokkra urriða.






×