Veiði

Veiðiréttindi á Kárastöðum háð reglum Þingvallanefndar

Bjarki Ármannsson skrifar
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segist ekki hafa dregið lögmæti veiðileyfasölu Kárastaða í efa.
Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður segist ekki hafa dregið lögmæti veiðileyfasölu Kárastaða í efa. Vísir/GVA
Öll veiðiréttindi sem fylgja jörðinni Kárastöðum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum eru háð takmörkunum laga og reglna Þingvallanefndar á hverjum tíma.

Þetta segir í yfirlýsingu sem Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, sendi til fjölmiðla í gær. Hana má lesa í heild sinni í PDF-skjali hér að neðan.

Stangveiðimaðurinn Einar S. Ólafsson, sem kærður var af þjóðgarði fyrir urriðadráp við Kárastaði, sakaði í gær þjóðgarðsvörð um að reyna að stækka áhrifasvæði sitt með „óttalega subbulegri stjórnsýslu“.

Einar skrifar í grein sem birtist á Vísi að lögmaður Þingvallanefndar hafi í kærunni sagst efast um lögmæti veiðileyfasölu Kárastaða. „Á íslensku: Þingvallanefnd ásælist veiðirétt ábúenda á Kárastöðum,“ skrifar Einar.

Í yfirlýsingu Ólafs segir að sá hluti Kárastaða sem snýr að vatninu sé óumdeilanlega innan þjóðgarðsins og því takmarkist réttur ábúenda við þær reglur sem Þingvallanefnd setur, meðal annars að öllum urriða skuli sleppt frá 20. apríl til 1. júní.

Þá segir að því hafi ekki verið haldið fram af hálfu þjóðgarðsvarðar að ábúandi Kárastaða hafi ekki heimild til þess að selja veiðileyfi fyrir landi sínu. Slíkar veiðar séu hins vegar háðar reglum sem um þær gilda á hverjum tíma.


Tengdar fréttir

Ég, veiðiþjófurinn

Ég, veiðiþjófurinn, ætla að leggja hérna nokkur orð í belg. Ég hef verið að velta því fyrir mér síðan þetta mál kom upp, hvernig á því gæti staðið að þjóðgarðsvörður legði svona mikið upp úr því að kæra veiðimann með nokkra urriða.

Varar jarðeigendur við yfirgangi Þingvallaþjóðgarðs

Veiðimaðurinn sem þjóðgarðurinn á Þingvöllum kærði fyrir urriðadráp segir að tilgangurinn sé að sölsa undir sig veiðiréttindi á Kárastöðum. Hann skorar á hagsmunaaðila við vatnið að spyrna "karlmannlega“ við fótum.






×