Kórinn ræðst í það stórvirki að flytja Mattheusarpassíuna nú á laugardaginn í kirkjunni, ásamt tvöfaldri hljómsveit, Gradualekór og einsöngvurum.
Benedikt Kristjánsson verður í hlutverki guðspjallamannsins, Bergþór Pálsson sem Jesús og Davíð Ólafsson sem Pílatus. Öllu stjórnar svo Jón Stefánsson sem heldur upp á 50 ára starfsafmæli sem organisti og kórstjóri Langholtskirkju.
Ingvar Jón segir Mattheusarpassíuna það verk Bachs sem hvað sjaldnast er flutt vegna þess hve stórt það sé í sniðum.
„Það eru tvær hljómsveitir og tveir konsertmeistarar sem koma fram," lysir hann og heldur áfram. „Bach var að leika sér með effekta í þessu verki. Kirkjukórnum okkar er splittað upp í tvo kóra sem koma hvor úr sinni áttinni og hljómsveitirnar spila ýmist önnur eða báðar, sterkt eða veikt.“
Þetta er fjórða stóra Bach-tónverkið sem Ingvar Jón syngur í á fjórum árum. Hann tók meðal annars þátt í Jóhannesarpassíunni með Kammerkór Grafarvogskirkju í apríl.

Ingvar Jón er arkitekt að mennt, lærði í Árósum í Danmörku, lauk doktorsnámi í Prag og vann á stofu hér á landi þegar hrunið varð. Nú nemur hann verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík og segir það gríðarlega skemmtilegt enda geti þau fræði nýst á flestum stöðum.
Hann fór í meirapróf eftir að hann missti vinnuna og hefur starfað sem bílstjóri á hópferðabílum.
„Ég starfa meðal annars hjá Strætó og síðustu tvö sumur hef ég verið í Finnmörku í Noregi og keyrt ferðamenn á nyrsta odda landsins, Nord Kap,“ lýsir hann. En skyldi hann stundum taka lagið fyrir ferðamennina?
„Nei, en ég spila klassík af diskum eða stilli á útvarpsstöðina Rondó. Strætófarþegar hafa tekið aukahring með mér því þeir tímdu ekki að fara út í loka-alt-aríunni úr Tristan og Ísold eftir Wagner.“