„Ég hanna frekar þunga skartgripi fyrir karlmennina. Ég reyni að gera karlmannshlutina stóra, mikla og sterklega en á móti kemur að kvenlínan, Berg, sem er að koma á markað, er fíngerð rétt eins og konan og það er hvergi sparað til efnið,“ segir Jóhannes Arnljóts Ottósson sem hannar undir skartgripamerkinu NOX.
Nýja kvenlínan hans, Berg, samanstendur af hring, lokkum og hálsmenum en Jóhannes segist ekki einblína á heilsteypta línu hverju sinni.

Jóhannes lærði gullsmíði í Tekniske skolen í Kaupmannahöfn og bjó þar í heil níu ár. Þaðan fór hann til Flórens á Ítalíu að læra skartgripahönnun í Alcimia. „Þar vorum við að búa til villta skartgripi úr svínamögum og -þörmum og gúmmíi. Sá skóli víkkaði sjóndeildarhringinn virkilega og hjálpaði mér mikið að koma mér út úr þessu boxi.“
Íslensku landvættirnir heilluðu og hannaði hann karlmannshringa sem nefnast Vættir. Garry Kasparov fékk einn slíkan hring í gjöf frá Jóhannesi sem er mikill aðdáandi.
Skartgripirnir eru til sölu í verslununum Epal, hjá Gilberti úrsmið, Rodio, Kraum og Iceland Around.
