
Stofan
Stólarnir eru frá Ikea og ég ákvað að hafa þá þægilega og munstrið passar vel við svo margt. Málverkið er eftir Húbert Nóa Jóhannesson en ég fæ að geyma það fyrir hann. Sófaborðið er úr Ikea og á borðinu stendur kínverskur antíkdrykkjarbrúsi.

Hönnunarstóllinn
Stóllinn er frá Cassina og heitir LC4 Chaise Lounge. Það er æðislegt að slappa af í honum og spjalla í símann, fletta tímaritum eða lesa góða bók. Borðið er frá Ikea og stóra kertastjakann fann ég á genbrugssölu í Köben.

Hillan
Þessa hillu bjó pabbi minn til. Ég er búin að eiga hana síðan ég man eftir mér. Allt dótið í henni er eitthvað sem ég hef safnað að mér á ferðalögum því ég vil ekki kaupa stóra muni. Þarna er að finna ýmislegt frá Róm, Kína og fleiri spennandi stöðum.

Körfurnar
Þennan stól fékk ég í genbrugsverslun í Danmörku. Málverkið fékk ég í stúdentsgjöf en það er eftir Húbert Nóa. Karfan á gólfinu eru frá Kína.

Púðinn
Púðann fékk ég í fertugsafmælisgjöf og er einstaklega ánægð með hann.

Svefnherbergið
Guðný Helga vinkona mín gaf mér myndina í svefnherberginu. Hún fékk hana í Kína og lét ramma inn. Rúmið er gamalt en ég lakkaði það hvítt og það sama á við um náttborðin. Lamparnir eru eldgamlir en ég fékk þá í Ikea og hef reglulega skipt um skerm á þeim.