„Mér þykir auðvitað ákaflega vænt um kirkjuna mína,“ segir Þórhallur sem starfaði þar frá 1996 til 2012 eða þar til honum var boðið að gerast kirkjuhirðir í Falun.
„Það var gamall draumur okkar hjóna að hverfa um stund aftur til Svíþjóðar og rifja þar upp gömul kynni en þar bjuggum við 1993 til 1996,“ lýsir hann.
Hafnarfjarðarkirkja var vígð 20. desember 1914 en þá voru íbúar Hafnarfjarðar 1.500.
„Kirkjan var vígð árið sem heimsstyrjöldin fyrri braust út. Á meðan heimsveldin hrundu til grunna reistu Hafnfirðingar guðshús til framtíðar,“ segir Þórhallur.
Hann getur þess að Hafnarfjörður hafi tilheyrt Garðasókn frá fornu fari og Hafnfirðingar sótt kirkju að Görðum.
„Það var um langan, ógreiðfæran vegarslóða að fara og því talið brýnt að byggja kirkju í hinum ört vaxandi kaupstað sem var stofnaður 1908.“
Yfirsmiður nýju kirkjunnar var Guðni Þorláksson en Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Séra Árni Björnsson var fyrsti presturinn.
„Nokkur hiti var í aðdraganda kosninganna,“ segir séra Þórhallur.
„Fyrst hafði séra Þorsteinn Briem verið kjörinn en hann afsalaði sér brauðinu eftir að hluti safnaðarins stofnaði fríkirkju. Fríkirkjan í Hafnarfirði var vígð árið 1913 og fagnaði því 100 ára afmæli í fyrra. En frá því að þessar tvær kirkjur risu hefur Hafnarfjarðarkirkja löngum gengið undir heitinu „Þjóðkirkjan“ í munni bæjarbúa þótt fyrir löngu séu komnir fleiri þjóðkirkjusöfnuðir,“ segir Þórhallur og óskar öllum Hafnfirðingum til hamingju með 100 ára afmæli Fríkirkjunnar í fyrra og 100 ára afmæli Þjóðkirkjunnar í ár.“

„Kirkjuhirðir ber ábyrgð á rekstrinum í umboði sóknarnefndar. Við erum með 120 manns í vinnu, þar af 14 presta, átta djákna, átta organista, húsverði, iðnaðarmenn, verkfræðing, kennara, gjaldkera, fjármálastjóra og kirkjugarðsstarfsfólk.
Við erum með sex kirkjur, 12 kirkjugarða, útfararkapellu, bálstofu, sex safnaðarheimili, tvo sjúkrahúspresta, fangelsisprest og háskólaprest og margs konar starfsemi. Við rekum meðal annars nokkra leikskóla, meðferðarheimili fyrir unglinga og fjölskyldu- og hjónaráðgjöf auk hefðbundinna safnaðarstarfa.“