Bryan Adams er einnig ötull baráttumaður fyrir réttindum dýra, enda grænmetisæta, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Bryan lýst yfir áhuga á að fylgjast með gleðigöngunni og jafnvel taka myndavélina sína með.
„Hann verður hérna í rólegheitum á milli tónleika þannig að hann á líklega eftir að kíkja í bæinn en svo veit ég að hann hefur mikinn áhuga á að fara Gullna hringinn og í Bláa lónið, þannig að fólk getur alveg rekist á kappann,“ bætir Guðbjartur við.
Spurður út í kröfulista kanadísku goðsagnarinnar segist Guðbjartur hann hófsaman og heilbrigðan.
„Hann er náttúrulega „vegan“ þannig að hann drekkur ekki einu sinni mjólk né borðar osta þannig að hann reddar sér með því að koma með sinn eigin kokk, sem sér til þess að hann fái góða máltíð,“ útskýrir Guðbjartur.
Hann bætir þó við að hann langi til þess að kynna íslenska grænmetisveitingastaði fyrir Adams.
„Það væri gaman að fara með hann á einhvern góðan stað á meðan hann dvelur hér en Neil Young sem var hér fyrir skömmu var svakalega ánægður með Gló þannig að það er aldrei að vita nema að Bryan Adams verði besti vinur Gló líkt og Young,“ segir Guðbjartur og hlær.
Bryan Adams verður með tvenna tónleika nú um helgina í Eldborgarsal Hörpu og er uppselt á hvora tveggja. Þessi hljómleikaferð er kölluð The Bare Bones Tour en hann verður einn með gítarinn sinn og munnhörpu ásamt píanóleikara og flytur öll sín vinsælustu lög.
Bare Bones-ferðin hefur fengið gríðarlega góða dóma alls staðar og er þetta einstakt tækifæri til að sjá kappann í návígi og jafnvel biðja um óskalag. „Það kom mér mikið á óvart að það skyldi seljast upp svona svakalega snögglega.“
Það seldist upp á fyrri tónleikana á um þremur til fjórum mínútum og svo á innan við sólarhring á seinni tónleikana.