„Fólk er alltaf að biðja um alvöru sveitaball og ég held að böllin verði bara ekki meira sveitó og skemmtilegri en ballið í kvöld,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson en hann er á leið austur að spila á réttarballi í Árnesi í kvöld. Hann kemur þar fram með hljómsveitinni sinni, Reiðmönnum vindanna, en sú sveit hefur verið ákaflega vinsæl og þá sérstaklega í sveitinni, eftir að hafa gefið út nokkrar plötur með gömlum og góðum lögum og hestalögum.
Helga langar gjarnan að taka þátt í réttunum fyrir ballið. „Mig langar mikið að kíkja við og fá þetta beint í æð, það verður stemning og svo er auðvitað fjöldi manns sem syngur saman ættjarðarlögin í fjór- eða fimmraddasöng,“ segir Helgi. Hann hvetur einnig borgarbúa til að skella sér austur og fá sveitamenninguna og stemninguna beint í æð. „Ég held líka að þetta sé eitt stærsta réttarball, eða sveitaball sem fer fram á Íslandi, ég hlakka mikið til.“
Ballið hefst klukkan 23.00 í félagsheimili Árnesinga, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, skammt frá Flúðum.

