Tíu glæný lög eftir Michael Jón Clark við skopleg og myndræn ljóð Þórarins Eldjárns verða frumflutt í Hömrum, Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í hádeginu á föstudag. Flytjendur eru Michael Jón baritón og Daníel Þorsteinsson píanóleikari.
Tónleikarnir hefjast klukkan 12. Þetta eru þeir fyrstu í röðinni Föstudagsfreistingar á vegum Tónlistarfélags Akureyrar. Þeir bera yfirskriftina Snigill og flygill og þess má geta að myndum Sigrúnar Eldjárn verður varpað á tjald.
Veitingastaðurinn 1862 Nordic Bistro framreiðir súpu sem tónleikagestir geta notið og er hún innifalin í miðaverði.
