Fimm dansarar taka þátt og voru á fyrstu sviðsæfingu í Kassanum í gær.
„Þetta eru allt íslenskar stelpur, sumar hafa unnið með íslenska dansflokknum. Það reynir verulega á þær, bæði þollega og andlega,“ segir Unnur Elísabet.
Hún kveðst líka fyrir tilviljun hafa kynnst frábærri rúmenskri konu sem býr í Bretlandi og er leikmynda-og búningahönnuður.
„Pabbi og stjúpmamma hittu þessa konu í kvöldverði í Seli við Mývatn og fóru að spjalla við hana, í ljós kom að hún gerir búninga fyrir dansara og fer óhefðbundnar leiðir.
Þau komu okkur í samband hvorri við aðra og nú er hún komin til Íslands með afar fallega búninga og leikmyndin verður eins og ævintýri. Hún ætlar að halda jólin hér ásamt manni sínum sem sér um tæknilega hlið sýningarinnar.“

„Það verður gaman að segja frá verkinu og sýna klippur úr því. Ég var ein af átta sem valdir voru úr hópi rúmlega 200 umsækjenda um að kynna verk sín og því er þetta mikill heiður,“ segir hún.
Dansinn hefur verið stór partur af tilveru Unnar Elísabetar frá því hún hóf nám fjögurra ára gömul.
„Ég flutti fimmtán ára út til Svíþjóðar í konunglega sænska ballettskólann og útskrifaðist átján ára. Síðan hef ég verið að dansa, bæði með Íslenska dansflokknum og víðar og búa til mín eigin verkefni. Ég væri ekki að þessu ef ástin á dansinum væri ekki fyrir hendi.“
Til að fjármagna laun listafólksins sem tekur þátt í sýningunni hóf Unnur Elísabet söfnun á Karolina Fund sem lýkur 14. desember. Fyrir þá sem lagt hafa í púkkið verður sérstök hátíðastyrktarsýning 27. desember þar sem Frímann Gunnarsson verður veislustjóri.
„Hann er þvílíkt að fórna sér fyrir listina, hann Frímann. Hann ætlar að ganga nakinn niður Skólavörðustíginn ef eitthvert fyrirtæki er tilbúið að styrkja okkur um 500 þúsund,“ upplýsir Unnur Elísabet.