„Þetta fór vel af stað og fyrri hálfleikurinn var mjög góður að flestu leyti. Svo dettur botninn úr þessu,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson markvörður Íslands eftir tapið gegn Þýskalandi í dag.
„Það er fínt að fá bæði jákvæða og neikvæða kafla til að læra af. Það er hægt að læra af báðum hálfleikum í dag.
„Við dettum allir niður í seinni hálfleik, bæði vörn og markvarsla. Við fáum mikið af hraðaupphlaupum á okkur og mikið af erfiðum boltum.
„Þetta er ákveðið samspil á milli sóknarleiks, varnarleiks og markvörslu því við erum að missa boltann oft klaufalega sem við fáum beint í bakið á okkur sem er erfitt að eiga við.
„Heilt yfir er þetta fínn leikur þó úrslitin segi annað.
„Auðvitað duttum við í varnarafbrigði sem við ætlum að prófa og við eigum eftir að fínpússa hana helling. Þetta er fín byrjun, sérstaklega fyrri hálfleikurinn sem verður veganesti inn í sjálfstraustið. Hitt þurfum við að læra af.
„3-2-1 vörnin hefur gengið rosalega vel á æfingum og framar vonum í rauninni en auðvitað lendum við í skellum þegar við leikum gegn sterkum andstæðingi eins og Þýskalandi. Það er fínt að þetta líti illa út núna og við verðum klárir með hana í vopnabúrið þegar við mætum til Katar,“ sagði Björgvin Páll.
