Dagur Sigurðsson byrjar því vel með þýska landsliðið en Pólverjar eru með eitt sterkasta lið mótsins að margra mati, á meðan að væntingar í garð þýska liðsins hefur verið stillt í hóf.
„Við vissum að þetta yrði mjög jafn leikur og það er alltaf sérstök stund þegar þessar þjóðir mætast, ekki síst þegar mið er tekið af því hvað gerðist í undankeppninni,“ sagði Roggisch og átti þar við leiki liðanna í júní þegar Pólverjar slógu Þjóðverja úr leik í undankeppni HM 2015.
Sjá einnig: Dagur: Þetta var alveg súper
En eins og frægt er orðið komst Þýskaland inn eftir að keppnisréttur Ástralíu var óvænt afturkallaður enda hlaut málið gríðarlega mikla umfjöllun á Íslandi.
„Við erum ekki stoltir af því hvernig við fengum okkar keppnisrétt og viljum síður ræða mikið um það. En sigurinn á Póllandi kom okkur kannski ekki á óvart því við vitum að við erum með gott lið. En það var hins vegar ekki hægt að fara fram á sigur gegn þessu sterka pólska liði sem var sigurstranglegri aðilinn fyrir leikinn.“
„Við byrjuðum vel og vorum góðir í fyrri hálfleik. Strákarnir lentu svo í basli með brottvísanir í síðari hálfleik en mér fannst mest til þess koma hversu vel þeir héldu ró sinni þrátt fyrir mótlætið þá. Leikurinn var jafn en þetta unga lið gerði mjög vel í að halda sínum hlut og klára leikinn.“

„Það má endalaust ræða um hin og þessi markmið en við ætlum einfaldlega að spila okkar handbolta eins vel og við getum og sjá hvað við komumst langt á því. Dagur er frábær í því að leggja línurnar fyrir liðið og mér líkar vel við þetta íslenska og skandinavíska viðhorf sem hann hefur komið með inn í liðið. Dagur er ákveðinn og vill að strákarnir séu það líka.“
Dagur hafði orð á því að leikurinn við Rússa væri „50/50 leikur“ - að liðin ættu jafnan möguleika á sigri. Roggisch tók undir þau orð. „Þetta verður alls ekki skyldusigur fyrir okkur. Rússarnir hafa stórbætt sig frá síðustu árum og þetta verður ekki auðvelt.“
Sjá einnig: Brand setur pressu á Dag og lærisveina hans
Roggisch segir að Dagur hafi fært þýska landsliðinu mikið á þeim mánuðum sem hann hefur þjálfað liðið. „Hann er með afslappað viðhorf sem hefur smitað frá sér. Hann gefur leikmönnunum aðeins meira frelsi á milli þess sem við æfum mjög vel. Það er vel tekið á því á æfingum og strákarnir fá að hvíla vel á milli.“
„Það vita allir að Dagur er frábær að undirbúa liðið og sinna teknískum undirbúningi en það er líka gaman að sjá hvernig hann ræðir við leikmenn. Hann er ekki í löngum ræðum heldur kemur því frá sér sem hann vill segja á 2-3 mínútum og það skilar sér til strákanna. Hann er svo líka naskur á að finna réttu orðin til að hvetja þá áfram og koma þeim í rétta gírinn fyrir leiki.“

„Báðir þekkja sín fræði afskaplega vel og ótrúlegt hversu margir góðir íslenskir þjálfarar eru í handboltanum, hvort sem er hjá landsliðunum eða í þýsku úrvalsdeildinni. Gummi er eldri og reyndari og talar því öðruvísi við leikmenn en Dagur sem ræðir við þá á sínum forsendum. Gummi er aðeins strangari en báðir eru þeir virkilega færir þjálfarar.“
Sjá einnig: Fyrirliði Þýskalands: Dagur komið með margar góðar breytingar
Roggisch, sem var fyrst og fremst mikið varnartröll á sínum síðari árum sem leikmaður, stendur nú fyrir utan völlinn og hann viðurkennir að það sé erfitt - að minnsta kosti svona fyrst um sinn.
„Þetta er fyrsta mótið þar sem ég er ekki með sem leikmaður og ekki nóg með það þá sit ég ekki á bekknum núna heldur uppi í stúku. Þar hefur maður alls engin áhrif á leikinn sem er vissulega óvenjulegt fyrir mig. En ég verð að venjast nýju hlutverki eins og allir aðrir og finna mig í því.“
„En þetta er starf sem ég kann afskaplega vel við. Ég er enn nálægt leikmannahópnum og er að gera það sem mér finnst skemmtilegast.“