Þjóðverjinn Martin Kaymer hefur farið á kostum á HSBC meistaramótinu sem fram fer í Abu Dhabi en fyrir lokahringinn í þessu sterka móti á Evrópumótaröðinni hefur hann sex högga forystu á næsta mann.
Kaymer hefur leikið hringina þrjá á 64, 67 og 65 höggum en hann er samtals á 20 höggum undir pari. Í öðru sæti er Belginn Thomas Pieters á 14 höggum undir pari en það þarf hálfgert kraftaverk til þess að ná Þjóðverjanum, sem hefur spilað stórkostlegt golf alla helgina.
Rory McIlroy er meðal þátttakenda á ný eftir jólafrí en hann virðist vera í góðu formi og situr jafn í fimmta sæti á tólf höggum undir pari.
HSBC meistaramótið er ekki það eina sem er á döfinni í golfheiminum þessa helgi en á Hawaii fer Sony Open fram sem hluti er af PGA-mótaröðinni. Þegar að mótið er hálfnað deila þeir Webb Simpson, Justin Thomas og reynsluboltinn Matt Kuchar mótið á 12 höggum undir pari.
Bæði mótin eru í beinni á Golfstöðinni en útsendingartíma má nálgast hér.
