Bæði lið dvelja á Hilton-hótelinu í Doha og voru fundirnir haldnir rétt við hvorn annan. Guðmundur reið á vaðið en þýska landsliðið hélt sinn fund hálftíma síðar.
„Ég er búinn að fara vel yfir leikinn og nýtti nóttina til þess,“ sagði Guðmundur sem hóf sinn blaðamannafund á slaginnu 11.00, rétt eins og auglýst var. Danir eru að jafna sig eftir óvænt jafntefli gegn Argentínu.

„Ég er sannfærður um að leikmennirnir munu svara þessu á réttan hátt - bæði á æfingunni í kvöld og í leiknum [gegn Sádí-Arabíu] á morgun.“
Sjá einnig: Dagur: Þetta var alveg súper
Það var öllu betra hljóðið í Degi Sigurðssyni enda unnu Þjóðverjar frábæran sigur á sterku liði Pólverja í gær, 29-26, sama liðinu og vann Þýskaland í undankeppni HM 2015 - eins furðulega og það hljómar.
Dagur fór yfir leikinn í mjög stuttu máli en sagði að hann hefði ekki dvalið lengi við leikinn og strax byrjað að undirbúa sig fyrir erfiðan leik gegn Rússum annað kvöld.

„Lið eins og Argentína og Brasilía hafa oft sýnt á heimsmeistarakeppnum að þau eru hættulegur andstæðingur, sérstaklega í fyrstu leikjum mótanna. Þess vegna er ég ánægður með að mæta Argentínu ekki fyrr en seint í riðlinum [á fimmtudag].“
Sjá einnig: Dagur: Þetta var alveg súper
„En Rússar eru með góða leikmenn og frábæran þjálfara [Oleg Kuleshov] sem er einn besti leikstjórnandi minnar kynslóðar í handbolta,“ sagði Dagur sem var vitanlega sjálfur leikstjórnandi á sínum tíma.
„Hann lætur liðið sitt spila góðan handbolta, nútímalegan og mér finnst að útlitið sé bjart fyrir Rússa á komandi árum.“
Dagur og Guðmundur verða báðir með lið sín í Lusail-höllinni á morgun. Þjóðverjar leika fyrst við Rússa klukkan 16.00 og Danir svo gegn Sádí-Arabíu klukkan 18.00.