Handbolti

Einar Andri í HM-kvöldi: Liðið virkaði ekki tilbúið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Guðmundsson og Einar Andri Einarsson voru sérfræðingar HM-kvöldsins á Stöð 2 Sport og fóru yfir leik Íslands og Svíþjóðar.

Ísland átti ekki möguleika í Svíþjóð í fyrsta leik liðsins á HM í kvöld, en okkar strákar töpuðu með átta marka mun, 24-16.

„Það er ekki hægt að segja neitt annað um þennan leik nema hann hafi verið hreinasta hörmung. Það er sama hvar var drepið niður fæti: Það var ekkert í lagi fyrir utan vörn og markvörslu,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, íþróttafréttamaður, sem stýrði fyrsta þættinum af HM-kvöldi á Stöð 2 Sport.

„Þetta er einhver slakasti landsleikur Íslands í tvo áratugi. Það var taugaveikun og andleysi. Varnarleikurinn var í sjálfu sér samt allt í lagi,“ sagði Guðjón Guðmundsson sem var sammála. Sóknarleikurinn var vitaskuld hörmung í kvöld.

„Við héldum ekki breidd, við sóttum stöðugt inn á miðsvæðið og það var ekkert tempó í leik íslenska liðsins. Við reyndum fimm skiptingar í fyrri hálfleik sem gengu ekki.“

„Við skorum eitt mark úr yfirtölu sem er skelfilegt, tólf mörk á 50 mínútum og tvö mörk úr hraðaupphlaupum. Þetta er lið sem á að skora 7-10 mörk í leik úr hröðum upphlaupum. Það breyttist svo ekkert í seinni hálfleik.“

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var mönnum sammála, en hann skildi varla á hvað hann hefði verið að horfa.

„Það var ótrúlegt að horfa á þennan leik. Það voru vonbrigði að sjá þetta og sjá hvernig liðið kom inn í mótið. Liðið virkaði ekki tilbúið á fyrstu mínútunum og komið 6-2 undir snemma,“ sagði hann.

„Það var ótrúlegt að horfa á sóknarleikinn. Það var sama hvað var sett upp, það gekk ekkert upp og frammistaða íslenskra leikmenn var langt frá því sem við erum vön að sjá. Það náði enginn að láta ljós sitt skína í kvöld.“

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.



Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn:
sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×