Dagur Sigurðsson fær góða gesti á landsleik Þýskalands og Póllands í fyrsta leik liðanna á HM í handbolta í dag.
Leikmenn knattspyrnuliðs Bayern München, sem eru hér staddir í æfingabúðum, ætla að mæta á leikinn og styðja sína menn. Það veitir ekki af enda telja margir að Pólverjar geti farið langt í mótinu.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur dvöl þeirra hér í Katar vakið eftirtekt enda Bayern eitt allra vinsælasta knattspyrnulið í heimi.
Leikur Þýskalands og Póllands fer fram í hinni stórglæsilegu Lusail-höll rétt utan höfuðborgarinnar Doha og hefst hann klukkan 16.00.
